Lagarammar fyrir gagnaflutning

Tekur gildi 1. september 2023

Við höldum úti þjónum víðsvegar um heiminn og úrvinnsla á upplýsingunum þínum getur farið fram á þjónum sem eru staðsettir utan heimalands þíns. Lög um gagnavernd eru mismunandi á milli landa, þar sem sum lönd veita meiri vernd en önnur. Óháð því hvar unnið er úr upplýsingunum frá þér bjóðum við upp á sömu vernd og lýst er í persónuverndarstefnunni. Við vinnum eftir tilteknum lagarömmum varðandi gagnaflutninga, eins og þeim lagarömmum sem lýst er hér á eftir.

Ákvörðun um hvort kröfum sé fullnægt

Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hefur ákvarðað að tiltekin lönd utan Evrópska efnahagssvæðisins (EES) verndi persónuupplýsingar á fullnægjandi hátt. Það þýðir að flytja má gögn frá Evrópusambandinu (ESB) og Noregi, Liechtenstein og Íslandi til þessara landa. Bretland og Sviss hafa tekið upp svipuð ákvörðunarferli til að meta hvort kröfum sé fullnægt. Við reiðum okkur á eftirfarandi ákvörðunarferli til að meta hvort kröfum sé fullnægt:

Lagarammar um gagnavernd milli ESB og Bandaríkjanna og Sviss og Bandaríkjanna

Líkt og fram kemur í vottun á fylgni við lagaramma um gagnavernd vinnum við eftir lagarömmum um gagnavernd (DPF) milli ESB og Bandaríkjanna (þ.m.t. viðbót sem tekur til Bretlands) og Sviss og Bandaríkjanna. Viðskiptaráðuneyti Bandaríkjanna lagði fram lagaramma um gagnavernd með tilliti til söfnunar, notkunar og varðveislu persónuupplýsinga frá löndum innan EES, Sviss og Bretlandi. Google LLC (og önnur dótturfyrirtæki í Bandaríkjunum sem eru að fullu í eigu þess, nema þau séu sérstaklega undanskilin) hefur vottað að það fylgi lagarömmum um gagnavernd. Google ber áfram ábyrgð á öllum persónuupplýsingum þínum sem er deilt með þriðju aðilum, í samræmi við reglur um framsendingu upplýsinga, fyrir vinnslu utanhúss af okkar hálfu, eins og lýst er í hlutanum „Upplýsingar sem við deilum“ í persónuverndarstefnu okkar.. Farðu á vefsvæði lagaramma um gagnavernd til að fá frekari upplýsingar um lagarammana og sjá vottun Google.

Ef þú ert með fyrirspurn um meðferð okkar á persónuupplýsingum er varðar vottun á fylgni við lagaramma um gagnavernd hvetjum við þig til að hafa samband. Google fellur undir rannsóknar- og eftirlitsyfirvöld Alríkisviðskiptastofnunar Bandaríkjanna (FTC). Þú getur einnig sent kvörtun til persónuverndaryfirvalda í þínu landi og við munum leysa úr málinu í samstarfi við þau. Undir vissum kringumstæðum má samkvæmt lagarömmum um gagnavernd hefja málarekstur fyrir bindandi gerðardómi til að leysa úr kvörtunum sem ekki verða leystar með öðrum hætti, eins og lýst er í I. viðauka við reglur um lagaramma um gagnavernd.

Sem stendur reiðum við okkur hvorki á lagaramma um gagnavernd milli Sviss og Bandaríkjanna né viðbót við lagaramma um gagnavernd milli ESB og Bandaríkjanna sem tekur til Bretlands til að flytja persónuupplýsingar til Bandaríkjanna.

Föst samningsákvæði

Föst samningsákvæði eru skriflegar skuldbindingar á milli aðila sem nota má sem grundvöll fyrir gagnaflutninga frá löndum innan EES yfir til þriðja lands með því að grípa til viðeigandi öryggisráðstafana varðandi gagnavernd. Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hefur samþykkt föst samningsákvæði og aðilar geta ekki gert breytingar á slíkum ákvæðum við notkun þeirra (hægt er að nálgast frekari upplýsingar um föst samningsákvæði sem framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hefur samþykkt hér, hér og hér). Slík ákvæði hafa einnig verið samþykkt hvað varðar flutning gagna til landa utan Bretlands og Sviss. Við reiðum okkur á föst samningsákvæði við gagnaflutning okkar eins og við á og í tilvikum sem falla ekki undir ákvörðun um hvort kröfum sé fullnægt. Hafðu samband ef þú vilt fá afrit af föstu samningsákvæðunum.

Google notar hugsanlega einnig föst samningsákvæði í samningum sínum við viðskiptavini fyrirtækjaþjónustu, þ. á m. Google Workspace, Google Cloud Platform, Google Ads og aðrar vörur sem eru notaðar til auglýsinga og mælinga. Frekari upplýsingar er að finna á privacy.google.com/businesses.

Google forrit
Aðalvalmynd