Auglýsingar

Það er auglýsingum að þakka að þú getur notað Google, sem og mörg önnur vefsvæði og þjónustu, án endurgjalds. Við keppumst við að tryggja að auglýsingarnar séu öruggar, ekki uppáþrengjandi og eins markvissar og kostur er. Til dæmis eru engir sprettigluggar með auglýsingum á Google, og á hverju ári eyðum við reikningum hundraða þúsunda útgefenda og auglýsenda sem brjóta gegn reglum okkar – svo sem með auglýsingum sem innihalda spilliforrit, auglýsingum um falsaðar vörur og auglýsingum sem miða að því að misnota persónuupplýsingar notenda.

Auglýsingaþjónustur Google eru að prófa nýjar leiðir til að styðja við birtingu og mælingar stafrænna auglýsinga með aðferðum sem gæta persónuverndar fólks betur á netinu í gegnum Privacy Sandbox-verkefnið í Chrome og Android. Notendur sem hafa kveikt á viðeigandi stillingum í Chrome eða Android kunna að sjá viðeigandi auglýsingar frá auglýsingaþjónustum Google byggt á gögnum forritaskilanna Topics eða Protected Audience sem eru vistuð í vafra eða snjalltæki notandans. Auglýsingaþjónustur Google kunna einnig að mæla árangur auglýsinga með gögnum forritaskilanna Attribution Reporting sem eru vistuð í vafra eða snjalltæki notandans. Frekari upplýsingar um Privacy Sandbox.

Notkun Google á fótsporum í auglýsingastarfsemi

Fótspor nýtast við að auka áhrif auglýsinga. Án fótspora er erfiðara fyrir auglýsendur að ná til markhóps síns eða átta sig á hversu margar auglýsingar hafa birst og hversu oft er smellt á þær.

Mörg vefsvæði á borð við fréttasíður og blogg eru í samstarfi við Google um að birta notendum vefsvæðanna auglýsingar. Við notum fótspor í ýmsum tilgangi, í samvinnu við samstarfsaðila okkar, svo sem til að koma í veg fyrir að notendur sjái sömu auglýsinguna endurtekið, til að greina og stöðva sviksamlega starfsemi og til að birta auglýsingar sem líklegt er að falli að áhugasviði notandans (svo sem út frá vefsvæðum sem notandinn skoðar).

Við geymum skrá yfir þær auglýsingar sem við birtum í notkunarskrám okkar. Þessar notkunarskrár netþjóna innihalda yfirleitt upplýsingar um vefbeiðni þína, IP-tölu, gerð vafra, tungumál vafra, dagsetningu og tíma beiðninnar og eitt eða fleiri fótspor sem kunna að auðkenna vafrann þinn. Fyrir því eru ýmsar ástæður, þó fyrst og fremst sú að bæta þjónustuna og tryggja öryggi kerfa okkar. Við gerum þessi skráningargögn nafnlaus með því að fjarlægja hluta IP-tölunnar (eftir 9 mánuði) og upplýsingar um fótspor (eftir 18 mánuði).

Auglýsingafótspor okkar

Til að aðstoða samstarfsaðila okkar við auglýsingastarfsemi sína og vefsíðurekstur bjóðum við upp á ýmsa þjónustu, svo sem AdSense, AdWords, Google Analytics og margs konar þjónustu sem fellur undir DoubleClick. Þegar þú skoðar síðu eða sérð auglýsingu sem notast við þjónustu af þessu tagi, annaðhvort í þjónustu Google eða á öðrum vefsvæðum og forritum, getur verið að eitt eða fleiri fótspor séu send í vafrann þinn.

Þetta kann að vera sent frá nokkrum mismunandi lénum, þ. á m. google.com, doubleclick.net, googlesyndication.com eða googleadservices.com, eða lénum vefsvæða samstarfsaðila okkar. Sum auglýsingaþjónusta sem við bjóðum gerir samstarfsaðilum okkar kleift að nota þjónustu frá öðrum ásamt okkar þjónustu (svo sem til að mæla og tilkynna áhrif auglýsinga). Slík þjónusta kann að koma sínum eigin fótsporum fyrir í vafranum þínum. Þau fótspor koma frá léni viðkomandi þjónustu.

Hér eru frekari upplýsingar um gerðir fótspora sem Google og samstarfsaðilar okkar nota, og hvernig við notum fótsporin.

Umsjón þín með auglýsingafótsporum

Þú getur notað auglýsingastillingar til að stjórna Google auglýsingunum sem þú sérð og til að slökkva á sérsniðnum auglýsingum. Jafnvel þótt þú slökkvir á sérsniðnum auglýsingum gætirðu enn séð auglýsingar sem byggjast á þáttum á borð við áætlaða staðsetningu þína út frá IP-tölu, tegund vafra og leitarfyrirspurnum.

Einnig geturðu haft umsjón með fótsporum ýmissa fyrirtækja sem notuð eru í auglýsingastarfsemi á netinu, með því að nota vinsæl verkfæri sem búin eru til í gegnum sjálfseftirlitsáætlanir í ýmsum löndum, svo sem bandarísku síðuna aboutads.info choices eða evrópsku síðuna Your Online Choices.

Þú getur líka stjórnað fótsporum í vafranum þínum.

Önnur tækni sem notuð er í auglýsingum

Auglýsingakerfi Google notast sum hver við annars konar tækni, svo sem Flash og HTML5, til dæmis til að geta birt auglýsingar með gagnvirka eiginleika. Við kunnum til dæmis að notast við IP-tölu þína til að ákvarða staðsetningu þína gróflega. Við gætum einnig valið handa þér auglýsingar út frá upplýsingum um tölvuna þína eða tækið, svo sem gerð þess, tegund vafra eða skynjara í tækinu, s.s. hröðunarmæli.

Staðsetning

Auglýsingavörur Google kunna að fá upplýsingar eða draga ályktanir um staðsetningu þína út frá ýmsum heimildum. Við kunnum til dæmis að nota IP-töluna þína til að greina staðsetningu þína gróflega, við kunnum af og til að fá nákvæmar staðsetningarupplýsingar frá fartækinu þínu, við kunnum að draga ályktun um staðsetningu þína út frá leitarfyrirspurnum og aukinheldur kunna vefsvæði og forrit sem þú notar að senda okkur upplýsingar um staðsetningu þína. Google notar staðsetningarupplýsingar í auglýsingavörum sínum til að birta þér meira viðeigandi auglýsingar, mæla árangur auglýsinga og senda uppsöfnuð talnagögn til auglýsenda.

Auglýsingakenni fyrir snjallforrit

Til að geta birt auglýsingar í þjónustu þar sem fótspor eru ef til vill ekki í boði (til dæmis í farsímaforritum) kunnum við að nota tækni sem þjónar svipuðu hlutverki og fótspor. Google tengir stundum auðkennið sem notað er fyrir auglýsingar í fartækjaforritum við auglýsingafótspor í sama tæki til þess að samræma auglýsingar í fartækjaforritum og vafra fartækisins. Þetta getur til dæmis gerst þegar þú sérð auglýsingu í forriti sem opnar vefsíðu í vafra fartækisins. Þetta hjálpar okkur einnig að veita auglýsendum okkar betri upplýsingar um hvort herferðir þeirra skila árangri.

Auglýsingar sem þú sérð í tækinu eru hugsanlega sérsniðnar út frá auglýsingakenni þess. Í Android-tækjum geturðu:

 • Endurstillt auglýsingakenni tækisins, en þá er núverandi auðkenni skipt út fyrir nýtt. Forrit geta áfram birt þér sérsniðnar auglýsingar en í einhvern tíma gætu þær átt verr við þig eða þér þótt þær síður áhugaverðar.
 • Eytt auglýsingakenni tækisins, en þá er auglýsingakenninu eytt og nýju er ekki úthlutað. Forrit geta áfram birt þér auglýsingar en þær gætu átt verr við þig eða þér þótt þær síður áhugaverðar. Þú munt ekki sjá auglýsingar sem byggjast á þessu auglýsingakenni en þú gætir áfram séð auglýsingar sem byggjast á öðrum þáttum, s.s. upplýsingum sem þú hefur deilt með forritum.

Til að breyta auglýsingakenni Android-tækisins skaltu fylgja leiðbeiningunum hér fyrir neðan.

Android

Endurstilla auglýsingakenni tækisins

Til að endurstilla auglýsingakenni tækisins:

 1. Opnaðu stillingar í Android-tækinu.
 2. Ýttu á Persónuvernd > Auglýsingar.
 3. Ýttu á Endurstilla auglýsingakenni og staðfestu breytingarnar.
Eyða auglýsingakenni tækisins

Til að eyða auglýsingakenni tækisins:

 1. Opnaðu stillingar í Android-tækinu.
 2. Ýttu á Persónuvernd > Auglýsingar.
 3. Ýttu á Eyða auglýsingakenni og staðfestu breytingarnar.

Auglýsingakennið verður endurstillt eða því eytt en forrit eru hugsanlega með eigin stillingar sem nota annars konar auðkenni sem geta einnig haft áhrif á hvers konar auglýsingar þú sérð.

Í sumum eldri útgáfum af Android

Ef Android-útgáfa tækisins er 4.4 eða eldri:

 1. Opnaðu stillingar
 2. Ýttu á Persónuvernd > Ítarlegt > Auglýsingar
 3. Kveiktu á Afþakka sérsniðnar auglýsingar og staðfestu breytingarnar.

iOS

Tækið með iOS notast við auglýsingaauðkenni Apple (Advertising Identifier). Til að fá frekari upplýsingar um hvernig má velja hvernig þetta auðkenni er notað skaltu fara í forritið Stillingar í tækinu þínu.

Tengt sjónvarp / bein sala

Auglýsingakenni fyrir tengt sjónvarp

Fótsporatækni er ekki í boði í tengdum sjónvörpum. Þess í stað birtir Google auglýsingar með því að nota auðkenni tækja sem eru hönnuð til að birta auglýsingar. Mörg tengd sjónvarpstæki styðja auglýsingarkenni sem virkar svipað og auðkenni snjalltækja. Þessi auðkenni eru gerð til að gefa notendum kost á að endurstilla þau eða afþakka sérsniðnar auglýsingar alfarið.

Eftirfarandi stillingar fyrir „Auglýsingar“ eru í boði í sjónvörpum og geta kallast eftirfarandi:

 • Endurstilla auglýsingakenni
 • Eyða auglýsingakenni
 • Afþakka sérsniðnar auglýsingar (kveikt eða slökkt)
 • Google auglýsingar (tengill á „Um sérsniðnar Google auglýsingar“)
 • Auglýsingakennið þitt (langur strengur)

Þessar auglýsingastillingar eru tiltækar á eftirfarandi slóðum í Google TV annars vegar og Android TV hins vegar.

Google TV

Föst slóð á auglýsingastillingar:

 1. Stillingar
 2. Persónuvernd
 3. Auglýsingar

Android TV

Auglýsingastillingar birtast á annarri tveggja almennra slóða fyrir Android TV, í samræmi við framleiðanda/gerð sjónvarpsins. Í Android TV hafa samstarfsaðilar kost á að aðlaga stillingaslóðina. Það veltur á samstarfsaðilanum hvor slóðin hentar þeirra sérsniðnu sjónvarpsupplifun betur en hér fyrir neðan eru helstu slóðir á auglýsingastillingar.

Slóð A:

 1. Stillingar
 2. Um
 3. Lagalegar upplýsingar
 4. Auglýsingar

Slóð B:

 1. Stillingar
 2. Kjörstillingar tækis
 3. Um
 4. Lagalegar upplýsingar
 5. Auglýsingar
Tæki utan Google

Mörg tengd sjónvarpstæki styðja auglýsingakenni og bjóða notendum upp á möguleika til að afþakka sérsniðnar auglýsingar. Heildarlista yfir slík tæki og möguleika fyrir notendur til að afþakka má finna á vefsvæði Network Advertising Initiative: https://thenai.org/opt-out/connected-tv-choices/

Hvað ræður því hvaða auglýsingar Google birtir mér?

Margar breytur liggja á bak við það hvernig auglýsingar eru valdar fyrir þig.

Stundum færðu birta auglýsingu út frá núverandi eða fyrri staðsetningu þinni. IP-talan þín er yfirleitt góð vísbending um áætlaða staðsetningu þína. Þú gætir til dæmis fengið upp auglýsingu á upphafssíðu YouTube.com um mynd sem er væntanleg í bíó í þínu landi, og ef þú leitar að „pizza“ gætirðu fengið niðurstöður um pítsustaði í nágrenninu.

Stundum eru auglýsingar birtar út frá efnistökum vefsíðunnar. Ef þú ert að skoða síðu með garðyrkjuráðgjöf gætir þú fengið upp auglýsingar um garðvörur.

Einnig gætirðu stundum séð auglýsingu á vefnum sem byggist á forritavirkni þinni eða virkni í þjónustu Google, auglýsingu í forriti byggða á netvirkni þinni eða auglýsingu byggða á virkni þinni í öðru tæki.

Stundum eru auglýsingar á vefsvæði birtar gegnum Google en valdar af öðru fyrirtæki. Sem dæmi má nefna ef þú hefur gerst áskrifandi að dagblaði á netinu. Blaðið getur þá valið hvernig auglýsingar það birtir þér út frá þeim upplýsingum sem þú hefur veitt því og notað auglýsingavörur Google til að koma þeim til skila.

Þú gætir einnig séð auglýsingar í vörum og þjónustu Google, þ.m.t. leitinni, Gmail og YouTube, sem byggjast á upplýsingum á borð við netfangið sem þú gafst upp við auglýsendur og sem auglýsendurnir deildu svo með Google.

Hvers vegna fæ ég upp auglýsingar frá Google um vörur sem ég hef skoðað?

Þú kannt að sjá auglýsingar fyrir vörur sem þú hefur áður skoðað. Gefum okkur að þú farir á vefsvæði þar sem seldar eru golfkylfur en þú kaupir kylfurnar ekki við fyrsta innlit. Eigandi vefsvæðisins gæti viljað hvetja þig til að koma aftur og ljúka kaupunum. Google býður þjónustu sem gerir stjórnendum vefsvæða kleift að beina auglýsingum til þeirra sem heimsækja síður þeirra.

Til að þetta virki les Google annaðhvort fótspor sem þegar er fyrir hendi í vafranum þínum eða vistar fótspor í vafranum þegar þú ferð á golfsíðuna (að því gefnu að vafrinn þinn leyfi slíkt).

Þegar þú heimsækir aðra síðu sem er í samstarfi við Google, jafnvel þótt hún sé alveg ótengd golfi, gætir þú séð auglýsingar um golfkylfurnar. Það er vegna þess að vafrinn þinn sendir Google sama fótsporið. Þannig getum við á móti notað það fótspor til að birta þér auglýsingu sem gæti hvatt þig til að kaupa golfkylfurnar.

Google kann einnig að notast við heimsókn þína á golfsíðuna til að birta þér sérsniðnar auglýsingar þegar þú leitar síðar að golfkylfum á Google.

Þessi gerð auglýsinga er háð vissum takmörkunum. Til dæmis bönnum við auglýsendum að velja markhóp á grundvelli viðkvæmra upplýsinga, svo sem heilsufarsupplýsinga eða trúarskoðana.

Frekari upplýsingar um Google auglýsingar.

Google forrit
Aðalvalmynd