Kynning

Markmið Google er að koma skipulagi á upplýsingar heimsins og gera þær aðgengilegar og gagnlegar. Staðsetningarupplýsingar eru mikilvægur hluti af því markmiði. Hvort sem það er til að veita þér akstursleiðsögn, ganga úr skugga um að leitarniðurstöður innihaldi hluti í nágrenni við þig eða til að sýna þér annatíma veitingahúsa geta staðsetningarupplýsingar bætt upplifun þína á Google og gert hana gagnlegri.

Staðsetningarupplýsingar auðvelda okkur einnig að veita þér ákveðna grunneiginleika, eins og vefsvæði á réttu tungumáli eða til að gæta öryggis Google-þjónusta.

Persónuverndarstefna Google lýsir því hvernig Google notar gögn, þ.m.t. staðsetningarupplýsingar, þegar þú notar vörur og þjónustur Google. Á þessari síðu finnurðu frekari upplýsingar um hvaða staðsetningarupplýsingar Google notar og hvernig þú getur stjórnað notkun þeirra. Sum gagnameðhöndlun er hugsanlega frábrugðin fyrir notendur undir 18 ára aldri. Frekari upplýsingar má finna í upplýsingum um persónuvernd Google-reikninga og persónuverndarhandbók Google fyrir unglinga.

Hvernig notar Google staðsetningarupplýsingar?

Notkun Google á staðsetningarupplýsingum er mismunandi eftir þjónustunni eða eiginleikanum sem er notaður hverju sinni og hún veltur einnig á tæki og reikningsstillingum notandans. Eftirfarandi eru nokkrar helstu ástæðurnar fyrir notkun Google á staðsetningarupplýsingum.

Til að gera upplifun notenda gagnlega

Google gæti notað eða vistað staðsetningarupplýsingar til að veita fólki gagnlega þjónustu þegar það notar Google-vörur, t.d. til að birta staðbundnar leitarniðurstöður hraðar, umferðarspár fyrir daglegar ferðir milli vinnustaðar og heimilis og tillögur sem taka tillit til aðstæðna einstaklings. Til dæmis er líklegt að einhver sem leitar að sýningatímum kvikmynda vilji sjá kvikmyndir í sýningu í sínu hverfi en ekki annarri borg. Staðsetningarupplýsingar í Google-kortum hjálpa fólki að finna staðsetningu sína á korti og komast á staði sem það vill heimsækja.

Til að hjálpa fólki að muna hvaða staði það hefur heimsótt

Fólk getur valið um að vista staðina sem það heimsækir í tækinu með því að nota tímalínuna. Til að nota tímalínuna getur fólk kveikt á staðsetningarferli sem er Google-reikningsstilling sem býr til sérsniðið kort með stöðunum sem viðkomandi hefur heimsótt og leiðunum sem viðkomandi hefur farið. Ef þú velur að nota staðsetningarferil verða nákvæmar staðsetningar tækisins vistaðar á sérsniðnu korti, jafnvel þegar Google-forrit eru ekki í notkun. Hægt er að skoða og eyða þessum upplýsingum á tímalínunni.

Til að aðstoða fólk við að finna hluti fyrr og fá gagnlegri niðurstöður

Vef- og forritavirkni er til dæmis Google-reikningsstilling sem gerir fólki kleift að vista virknigögn og tengdar upplýsingar á borð við staðsetningu svo að það geti fengið sérsniðnari upplifun þegar það er innskráð í Google-þjónustur. Leit kann til dæmis að birta niðurstöður sem eiga við svæði sem þú hefur leitað frá áður.

Til að sýna gagnlegri auglýsingar

Staðsetningarupplýsingar geta auðveldað Google að birta þér gagnlegri auglýsingar. Þegar þú leitar að einhverju á borð við „skóbúðir nálægt mér“ er hægt að nota staðsetningarupplýsingar til að birta þér auglýsingar frá skóbúðum nálægt þér. Eða ef þú leitar til dæmis að gæludýratryggingum kunna auglýsendur að birta ólíkar tryggingar fyrir mismunandi svæði. Kynntu þér hvernig staðsetningarupplýsingar eru notaðar til að birta auglýsingar.

Til að gera upplifunina öruggari

Google notar upplýsingar um staðsetningu þína til að veita tilteknar grunnþjónustur, s.s. að gæta að öryggi reikningsins þíns með því að greina óvenjulega virkni eða innskráningu frá nýrri borg.

Til að sýna nafnlaus gögn um samfélagsþróun, mat og í rannsóknartilgangi

Google notar einnig samansafnaðar, nafnlausar staðsetningarupplýsingar fyrir rannsóknir og til að sýna samfélagsþróun.

Skoðaðu persónuverndarstefnu Google til að sjá fleiri notkunarmöguleika staðsetningarupplýsinga.

Hvernig virkar staðsetning í Android-tækjum og -forritum?

Þú getur notað staðsetningu tækisins til að fá staðbundnar leitarniðurstöður, samgönguáætlanir og til að finna nálæga veitingastaði. Android-tækjastillingar fyrir snjallsíma eða spjaldtölvur gera þér kleift að stjórna því hvort staðsetningarþjónusturnar í tækinu áætla staðsetningu og hvort og hvernig tiltekin forrit og þjónustur í tækinu geta notað staðsetningu tækisins.

Svona geturðu stjórnað því hvernig forrit nota staðsetningu tækis

Þú getur stjórnað því hvaða forrit hafa heimild til að nota staðsetningu tækisins í Android-tækjastillingunum. Stillingarnar bjóða upp á stýringar sem gera þér kleift að velja hvort forrit hafi aðgang að nákvæmri eða áætlaðri staðsetningu. Við höfum bætt við stýringum sem gera þér kleift að velja hvort forrit hafi aðgang að staðsetningu tækisins alltaf, aðeins þegar forritið er í notkun, þurfi að biðja um heimild í hvert skipti eða aldrei. Tiltækileiki þessara stillinga og stýringa fer eftir Android-útgáfunni sem tækið keyrir. Nánar.

Svona virkar staðsetning tækis

Android-tæki áætla staðsetningu með mismunandi inntaki, í samræmi við stillingar tækisins. Þar á meðal eru GPS, skynjarar (t.d. hraðamælir, snúðvísir, segulskynjari og loftvog), merki farsímakerfa og WiFi-merki. Hægt er að nota viðkomandi inntak til að meta staðsetningu með hámarksnákvæmni. Staðsetningin er síðan notuð í forritum og þjónustum í tækjum með áskildar heimildir. Nánar um staðsetningarstillingar Android-tækisins.

Merki farsímakerfa og WiFi-merki geta hjálpað Android að áætla staðsetningu tækisins, einkum þar sem GPS-merki eru ekki tiltæk eða ónákvæm, þ.m.t. á fjölmennum þéttbýlissvæðum eða innandyra. Staðsetningarnákvæmni Google (GLA, einnig þekkt sem staðsetningarþjónusta Google) er Google-þjónusta sem notar þessi merki til að bæta staðsetningaráætlun tækisins.

Þegar kveikt er á GLA veitir eiginleikinn nákvæmari staðsetningu með því að safna staðsetningarupplýsingum úr Android-tækinu þínu reglulega – þ. á m. GPS og upplýsingum um WiFi-aðgangspunkta, farsímakerfi og skynjara tækis – með tímabundnu, breytilegu auðkenni tækis sem er ekki tengt neinum ákveðnum einstaklingi. GLA notar þessar upplýsingar til að bæta staðsetningarnákvæmni og veita staðsetningarbundna þjónustu, þar á meðal með því að búa til hópvistunarkort af WiFi-aðgangspunktum og farsímakerfisturnum.

Þú getur slökkt á GLA hvenær sem er í staðsetningarstillingum Android-tækisins. Staðsetning Android-tækisins heldur áfram að virka jafnvel þótt slökkt sé á GLA og tækið reiðir sig þá aðeins á GPS og skynjara tækis til að áætla staðsetningu tækisins.

Hvernig veit Google staðsetningu mína?

Í samræmi við þær vörur sem þú notar og þær stillingar sem þú velur getur Google notað ólíkar tegundir staðsetningarupplýsinga til að gera tilteknar vörur og þjónustur sem þú notar gagnlegri.

Staðsetningarupplýsingar kunna að fást með merkjum í rauntíma, eins og IP-tölu eða frá tækinu, en einnig með vistaðri virkni á vefsvæðum og í þjónustum Google. Eftirfarandi eru helstu leiðirnar sem Google notar til að fá upplýsingar um staðsetningu þína.

Frá IP-tölunni þinni

IP-tala, einnig kölluð vistfang tölvu, er tala sem netþjónustan þín úthlutar tölvunni eða tækinu. IP-tölur eru notaðar til að tengja tækin þín við vefsvæðin og þjónusturnar sem þú notar.

Líkt og önnur netþjónusta getur Google notað upplýsingar um svæðið sem þú ert á til að veita þér ákveðna grunnþjónustu, gagnlegar niðurstöður – t.d. þegar einhver leitar og spyr hvað klukkan er – eða til að gæta að öryggi reikningsins þíns með því að greina óvenjulega virkni á borð við innskráningu í nýrri borg.

Hafðu í huga: Tæki þurfa IP-tölu til að geta sent og móttekið netumferð. IP-tölur eru gróflega byggðar á staðsetningu. Það þýðir að öll forrit, þjónustur eða vefsvæði sem þú notar, þar á meðal google.com, geta hugsanlega áætlað og notað tilteknar upplýsingar um svæðið sem þú ert á út frá IP-tölunni þinni.

Úr vistaðri virkni

Ef þú ert skráð(ur) inn á Google-reikninginn þinn og kveikt er á vef- og forritavirkni verða gögn um virkni þína á vefsvæðum og í forritum og þjónustum Google hugsanlega vistuð í vef- og forritavirkni reikningsins. Sum virkni inniheldur hugsanlega upplýsingar um svæðið sem þú varst á þegar þú notaðir Google-þjónustuna. Þegar þú leitar að einhverju innan svæðis nær leitin yfir a.m.k. 3 ferkílómetra eða stækkar þar til a.m.k. 1000 manns eru innan svæðisins. Þetta hjálpar til við að gæta persónuverndar þinnar.

Í sumum tilfellum eru svæði sem þú hefur leitað á áður notuð til að meta hvaða staðsetning hentar leitinni þinni. Ef þú leitar til dæmis að kaffihúsum þegar þú ert í Laugardalnum, gæti Google birt leitarniðurstöður í Laugardalnum í framtíðinni.

Þú getur skoðað og stjórnað vef- og forritavirkninni þinni undir Mín virkni.

Ef þú ert ekki innskráð(ur) á Google-reikninginn þinn kann Google að vista tilteknar staðsetningarupplýsingar úr fyrri leitum úr tækinu sem þú notar til að skila gagnlegri niðurstöðum og tillögum. Ef þú slekkur á sérsniði Leitar mun Google ekki nota fyrri leitarvirkni til að áætla staðsetningu þína. Nánar um að fara huldu höfði þegar þú leitar og vafrar.

Út frá heimilisfangi eða heimilisfangi vinnu sem þú hefur vistað

Þú velur hugsanlega að vista mikilvæga staði á Google-reikningnum þínum, t.d. heimilið eða vinnustaðinn. Ef þú skráir heimilisfang eða heimilisfang vinnu er hægt að nota þau til að auðvelda þér lífið, t.d. sýna þér leiðarlýsingu eða niðurstöður nær heimilinu eða vinnunni og til að birta þér gagnlegri auglýsingar.

Þú getur breytt eða eytt heimilisfangi eða heimilisfangi vinnu hvenær sem er á Google-reikningnum þínum.

Úr tækinu

Svona nota Google-forrit staðsetningu úr tækinu

Tæki bjóða upp á stillingar og heimildir sem þú getur notað til að stjórna því hvort forrit hafi aðgang að nákvæmri staðsetningu þinni, þ.m.t. Google-forrit á borð við Leit og Kort. Nákvæm staðsetning getur komið sér vel í forritum á borð við Google-kort til að veita leiðarlýsingar eða gagnlegar leitarniðurstöður í nágrenninu. Þú færð til dæmis gagnlegri leitarniðurstöður fyrir atriði á borð við nálæga staði og veðurupplýsingar þegar kveikt er á stillingum og heimildum fyrir nákvæma staðsetningu.

Bæði iOS og Android eru með stillingar fyrir staðsetningarheimildir forrita sem hægt er að kveikja eða slökkva á. Þú getur leyft forritum að nota staðsetningu þína til að bjóða upp á eiginleika og þjónustur sem byggjast á staðsetningu. Hafðu í huga að stundum er nauðsynlegt fyrir forrit að vista nákvæma staðsetningu þína tímabundið svo þau geti birt þér gagnlegar niðurstöður með hraði eða sparað rafhlöðu með því að þurfa ekki stöðugt að uppfæra staðsetninguna.

Sum forrit þarfnast aðgangs að staðsetningu tækisins í bakgrunni, t.d. „Finna tækið mitt“, eða ef þú vilt nota tiltekna eiginleika, t.d. staðsetningardeilingu.

Frekari upplýsingar um hvernig staðsetning virkar í Android-tækinu þínu má finna hér.

Hvernig eru staðsetningarferill og vef- og forritavirkni vistuð á Google-reikningnum mínum?

Stillingin Staðsetningarferill mun breytast á næstu mánuðum og inn í árið 2024. Núverandi notendur Staðsetningarferils fá tilkynningu um hvenær þessi breyting hefur áhrif á þeirra reikning og þegar þeir hafa fengið tilkynningu fara þeir að sjá heitið Tímalína í stillingum reiknings og forrits. Fyrir þau sem nota nú þegar Tímalínu, þar á meðal notendur sem kveiktu sjálfir á Tímalínu, eiga upplýsingarnar sem koma fram á þessari síðu um staðsetningargögn í Staðsetningarferli við um notkun þeirra á Tímalínu. Nánar.

Staðsetningarferill og vef- og forritavirkni

Staðsetningarferill og vef- og forritavirkni eru stillingar Google-reiknings sem nota staðsetningu. Hér er yfirlit um hvort tveggja. Hafðu í huga að aðrir eiginleikar og vörur kunna einnig að safna og vista staðsetningarupplýsingar.

Staðsetningarferill

Ef þú kveikir á staðsetningarferli býr hann til tímalínu, sérsniðið kort sem aðstoðar þig að muna hvaða staði þú hefur heimsótt og hvaða leiðir og ferðir þú hefur farið.

Sjálfgefið er að slökkt sé á staðsetningarferli. Ef þú kveikir á staðsetningarferli er nákvæm staðsetning þín vistuð reglulega í öllum gjaldgengum snjalltækjum með kveikt á stillingu fyrir staðsetningartilkynningar. Þessar tækjastaðsetningar eru notaðar til að byggja upp tímalínu, líka þegar Google-forrit eru ekki í notkun.

Svo að allir geti gagnast af Google er hægt að nota staðsetningarferilinn til að

  • birta upplýsingar á borð við vinsælar tímasetningar og innsýn í umhverfismál, byggt á nafnlausum staðsetningarupplýsingum
  • greina og koma í veg fyrir svik og misnotkun
  • bæta og þróa Google-þjónustur, þ.m.t. auglýsingavörur

Staðsetningarferill getur einnig hjálpað fyrirtækjum að meta líkurnar á því að fólk heimsæki verslanir þeirra út frá auglýsingu.

Þú getur yfirfarið, breytt og eytt því sem hefur verið vistað á tímalínunni hvenær sem er. Skoðaðu virknistýringarnar til að sjá hvort kveikt sé á staðsetningarferli. Þar geturðu stjórnað stillingum staðsetningarferils og stjórnað því hvaða tæki tilkynna staðsetningu sína.

Það er breytilegt hversu oft nákvæm staðsetning þín er vistuð í staðsetningarferilinn. Ef þú ert til dæmis að nota leiðarlýsingu í Google-kortum er hún hugsanlega vistuð nokkrum sinnum á mínútu. Ef þú ert hins vegar ekki að nota símann gæti það verið á nokkurra klukkustunda fresti.

Það veltur á stillingunum þínum hversu lengi gögn staðsetningarferils eru vistuð—þú getur valið að eyða gögnunum sjálfkrafa eftir 3, 18 eða 36 mánuði eða haldið þeim þar til þú eyðir þeim handvirkt.

Hafðu í huga

Ef þú slekkur á staðsetningarferli

  • Google geymir öll gögn staðsetningarferils sem þú hefur vistað þar til þú eyðir þeim eða þeim verður eytt eftir tímabilið sem þú velur í stillingum fyrir sjálfvirkra eyðingu.
  • Þótt þú slökkvir á staðsetningarferli hefur það ekki áhrif á hvernig staðsetningarupplýsingar eru vistaðar eða notaðar af vef- og forritavirkni eða öðrum Google-vörum, t.d. byggt á IP-tölunni þinni. Þú gætir enn verið með aðrar stillingar sem vista staðsetningarupplýsingar.

Skoðaðu virknistýringarnar til að sjá hvort kveikt sé á staðsetningarferli. Nánar.

Vef- og forritavirkni

Vef- og forritavirknigögnin þín eru notuð til að sérsníða upplifun þína enn frekar í Kortum, Leit og öðrum Google-þjónustum. Einnig er hægt að nota þau til að birta þér auglýsingar sem eiga betur við þig, byggt á auglýsingastillingunum þínum. Vef- og forritavirkni virkar í öllum tækjum þar sem þú skráir þig inn á reikninginn þinn.

Ef kveikt er á vef- og forritavirkni vistar Google gögn um það sem þú gerir í Google-þjónustum í vef- og forritavirkni reikningsins þíns. Þar með talið tengdar upplýsingar, t.d. á hvaða svæði þú notaðir Google-þjónustu.

Ef þú leitar til dæmis að veðurupplýsingum og færð niðurstöður fyrir staðsetningu sem tækið þitt sendi er þessi virkni vistuð í vef- og forritavirkni, þ.m.t. svæðið sem tækið var á þegar þú leitaðir. Nákvæma staðsetningin sem tækið sendir er ekki vistuð, eingöngu svæðið í kring. Vistaða staðsetningin getur komið frá IP-tölunni eða tækinu og verður hugsanlega notuð í framtíðinni til að hjálpa Google að ákvarða staðsetningu sem á betur við leitina þína. Þessari vistuðu staðsetningu er eytt sjálfkrafa úr vef- og forritavirkni eftir 30 daga.

Vef- og forritavirknigögn hjálpa Google að skilja hvaða svæði eru viðeigandi fyrir þig og sýna þér niðurstöður á þeim svæðum þegar þú ert til dæmis að leita.

Þú getur slökkt á vef- og forritavirkni eða yfirfarið og eytt staðsetningu og öðrum upplýsingum sem eru vistaðar í vef- og forritavirkni í virknistýringunum. Ef slökkt er á vef- og forritavirkni verða frekari virknigögn ekki vistuð.

Hafðu í huga

Þegar þú slekkur á vef- og forritavirkni

  • Þú gætir enn verið með vistaða virkni sem verður hugsanlega notuð þar til þú eyðir henni. Þú getur eytt henni hvenær sem er. Vistuðu staðsetningarupplýsingunum þínum verður enn eytt sjálfkrafa eftir 30 daga.
  • Þótt þú slökkvir á vef- og forritavirkni hefur það ekki áhrif á hvernig aðrar stillingar, t.d. staðsetningarferill, vista eða nota staðsetningarupplýsingar. Þú gætir enn verið með aðrar gerðir staðsetningarupplýsinga vistaðar sem hluta af öðrum stillingum, þ.m.t. IP-tölu.

Skoðaðu virknistýringarnar til að sjá hvort kveikt sé á vef- og forritavirkni. Nánar

Hvernig notar Google staðsetningarupplýsingar sem eru með gerviauðkenni eða nafnlaus?

Google notar staðsetningargögn sem eru nafnlaus eða með gerviauðkenni til að efla persónuvernd fólks. Almennt er ekki hægt að tengja nafnlausar upplýsingar við einstaklinga. Upplýsingar með gerviauðkenni tengjast oft einkvæmu auðkenni, t.d. talnaröð, frekar en persónugreinanlegum upplýsingum, t.d. reikningi einstaklings, nafni eða netfangi. Google getur notað staðsetningarupplýsingar sem eru nafnlausar eða með gerviauðkenni í vörum og þjónustum sínum fyrir auglýsingar eða þróun.

Notendur geta hugsanlega endurstillt tiltekin gerviauðkenni sem tengjast staðsetningarupplýsingum. Fólk getur til dæmis endurstillt tiltekin gerviauðkenni með því að endurstilla auglýsingakenni í Android-tækjunum sínum. Þar að auki endurstillir Google tiltekin gerviauðkenni sjálfkrafa til að bæta persónuvernd notenda, þ.m.t. fyrir GLA, tækjastillinguna sem notendur geta stjórnað til að bæta staðsetningarbundna þjónustu og nákvæmni í tækjum sínum.

Google getur notað nafnlausar staðsetningarupplýsingar sérstaklega. Fólk getur til dæmis ýtt á staði í Google-kortum, t.d. veitingastað eða almenningsgarð, og séð þróun tengda viðkomandi stöðum innan svæðis. Staðsetningarupplýsingar sem eru notaðar til að sýna þróun, t.d. vinsælar tímasetningar, er ekki hægt að nota til að auðkenna einstakling. Ef Google er ekki með nægar upplýsingar til að birta áreiðanlegar og nafnlausar upplýsingar um annríki birtast þær ekki á Google.

Google býður einnig fólki sem er ekki innskráð upp á aðrar leiðir til að stjórna upplýsingum sem tengjast vafranum eða tækinu, þ.m.t. sérstillingu Leitar, YouTube-stillingar og auglýsingastillingar. Nánar

Kynntu þér hvernig Google notar staðsetningarupplýsingar í persónuverndarstefnu Google. Kynntu þér hvernig Google varðveitir gögn sem var safnað og hvernig Google gerir gögn nafnlaus.

Hversu lengi varðveitir Google staðsetningarupplýsingar?

Persónuverndarstefna Google lýsir því hvernig við varðveitum notandagögn, þ.m.t. staðsetningarupplýsingar sem Google safnar. Staðsetningarupplýsingum er safnað í mislangan tíma byggt á gögnunum sem um ræðir, hvernig þau eru notuð og stillingum fólks.

Tilteknar staðsetningarupplýsingar eru vistaðar á Google-reikningnum þínum þar til þú eyðir þeim

  • Umsjón varðveislu og eyðingar: Bæði staðsetningarferill og vef- og forritavirkni eru með valkosti fyrir sjálfvirka eyðingu sem gera þér kleift að eyða gögnum sjálfkrafa eftir 3, 18 eða 36 mánuði. Þú getur einnig séð gögnin á tímalínunni eða í „Mín virkni“ og eytt ákveðinni virkni eða miklu magni gagna eftir því sem hentar þér. Þú getur breytt þessum stillingum hvenær sem er eða breytt valinu fyrir sjálfvirka eyðingu.
  • Vistun staðsetningarupplýsinga: Staðsetningarupplýsingar kunna að vera vistaðar á Google-reikningnum þínum, en það er mismunandi eftir Google-vörum og -þjónustum. Þú getur til dæmis merkt staðsetningar í Myndum eða bætt við heimilisfangi heimilis eða vinnu í Kortum. Þú getur eytt þessum staðsetningarupplýsingum.

Þegar þú eyðir gögnum fylgir Google reglum til að fjarlægja þau varanlega af reikningnum þínum á öruggan hátt svo ekki sé hægt að endurheimta gögnin. Til að byrja með verður virknin sem þú eyðir falin og ekki lengur notuð til að sérsníða upplifun þína á Google. Eftir það hefur Google ferli sem er sérstaklega hannað til þess að eyða gögnunum varanlega úr Google-geymslurýmum á öruggan hátt. Kynntu þér hvernig Google varðveitir gögn sem er safnað.

Upplýsingar sem renna út eftir ákveðinn tíma

Hvað varðar aðrar staðsetningarupplýsingar vistar Google stundum gögn í ákveðinn tíma áður en þeim er eytt í stað þess að það þurfi að eyða þeim handvirkt. Um þetta er fjallað í Svona geymir Google gögn. Tíminn sem líður áður en gögnum er eytt örugglega og alfarið fer eftir gagnagerðum, til dæmis:

  • Google nafnleysir auglýsingagögn í annálum þjóna með því að fjarlægja hluta IP-tölunnar eftir 9 mánuði og fótsporaupplýsingar eftir 18 mánuði.
  • Google eyðir staðsetningu sem byggist á IP-tölu og staðsetningu tækis úr vef- og forritavirkni eftir 30 daga.

Upplýsingar sem eru geymdar í lengri tíma í afmörkuðum tilgangi

Eins og lýst er í persónuverndarstefnu Google gildir eftirfarandi: „Sumum gögnum er haldið eftir lengur þegar slíkt er nauðsynlegt af góðum og gildum lagalegum eða viðskiptalegum ástæðum, svo sem vegna öryggis, til að sporna gegn svikum og misnotkun eða vegna bókhaldsskráningar“. Nánar um vinnulag okkar varðandi varðveislu

Hvernig eru staðsetningarupplýsingar notaðar fyrir auglýsingar?

Til að hjálpa til við að birta þér gagnlegri auglýsingar

Auglýsingarnar sem þú sérð kunna að vera byggðar á staðsetningarupplýsingum frá þér. Almennt nota auglýsingar á Google sömu gerðir staðsetningarupplýsinga og vörurnar þar sem þær birtast. Til dæmis kunna auglýsingar í Leit og á öðrum Google-vettvöngum að byggjast á staðsetningu úr tækinu þínu, IP-tölum, fyrri virkni eða heimilisfangi heimilis eða vinnu sem skráð eru á Google-reikningnum þínum. Þetta fer eftir stillingunum þínum. Þar að auki gætu lýsigögn (t.d. tímabelti vafra, lén, innihald síðu, tegund vafra, tungumál síðu) verið notuð til að áætla landið þitt eða almennt svæði sem þú hefur áhuga á. Við gætum treyst á þessi lýsigögn til viðbótar við staðsetningarmerki sem við fáum frá IP-tölunni þinni, VPN-neti, þjónustu staðgengilsþjóns eða öðrum netkefisupplýsingum.

Notkun staðsetningarupplýsinga hjálpar til við að sýna þér auglýsingar sem eiga betur við svæðið sem þú ert á eða svæði sem eru viðeigandi fyrir þig. Ef til dæmis er kveikt á staðsetningarstillingu tækisins og þú leitar að veitingastöðum í grenndinni á Google, er núverandi staðsetning tækisins hugsanlega notuð til að birta þér auglýsingar fyrir veitingastaði nálægt þér. Staðsetningin þín er hugsanlega einnig notuð til að sýna þér vegalengdir að nálægum fyrirtækjum í tengslum við auglýsingar á Google.

Google kann einnig að nota fyrri vafra- eða forritavirkni (t.d. það sem þú leitar að, vefsvæði sem þú heimsækir eða myndskeið sem þú sérð á YouTube) og vistuð svæði frá stillingu vef- og forritavirkni til að birta þér gagnlegri auglýsingar. Ef þú leitar til dæmis að stað til að kaupa mjólk í nágrenninu á Google kanntu að sjá auglýsingar frá matvöruverslunum á svæðinu þar sem þú notar Google-leit oft á meðan þú bíður eftir strætó eða lest.

Auglýsendur geta aðeins miðað auglýsingum á svæði, svo sem lönd, borgir eða svæði umhverfis fyrirtækið þeirra.

Skoðaðu hjálparmiðstöðina til að fá frekari upplýsingar um birtingarkerfið okkar.

Til að hjálpa auglýsendum að mæla árangur

Google gæti einnig notað staðsetningarupplýsingar til að greininga og mælinga til að skilja hvernig Google-þjónustur eru notaðar. ​Ef þú hefur til dæmis valið að kveikja á staðsetningarferli, notar Google gögnin til að hjálpa auglýsendum að meta hvort að fólk sé líklegt til að heimsækja verslanir þeirra út frá auglýsingum á netinu. Eingöngu nafnlausu mati er deilt með auglýsendum, ekki persónuupplýsingum. Til að gera það tengir Google netvirknigögnin þín, t.d. auglýsingasmelli, við gögn staðsetningarferils sem tengjast verslunum auglýsenda. Staðsetningarferlinum þínum er ekki deilt með auglýsendum.

Til að bæta vörur og þjónustur Google

Google notar einnig staðsetningarupplýsingar til að bæta auglýsingavörur sínar. Til dæmis er hugsanlegt að vistuð reikningsgögn um auglýsingarnar sem þú bregst við, þ.m.t. svæði viðkomandi virkni, sé safnað saman og þau notuð í vélnámslíkönum sem bæta verkfæri snjallboða. Reikningsgögnum er ekki deilt með auglýsendum.

Hvernig stjórna ég því hvernig staðsetningarupplýsingarnar mínar eru notaðar til að birta auglýsingar?

Þú getur stjórnað því hvernig hægt er að nota svæði þar sem þú hefur notað Google-vefsvæði og -forrit áður til að hafa áhrif á auglýsingarnar sem birtast þér með því að nota stýringuna „Svæði þar sem þú hefur notað Google“ í „Auglýsingastillingarnar mínar“.

Þegar kveikt er á svæðum þar sem þú hefur notað Google

Þegar kveikt er á sérsniðnum auglýsingum og svæðum þar sem þú hefur notað Google notar Google gögnin sem eru vistuð í vef- og forritavirkni þinni sem tengjast svæðunum þar sem þú hefur notað vefsvæði og forrit Google til að sérsníða auglýsingarnar þínar.

Þegar slökkt er á svæðum þar sem þú hefur notað Google

Þegar slökkt er á sérsniðnum auglýsingum og svæðum þar sem þú hefur notað Google notar Google ekki gögnin sem eru vistuð í vef- og forritavirkni þinni sem tengjast svæðunum þar sem þú hefur notað vefsvæði og forrit Google til að sérsníða auglýsingarnar þínar. Jafnvel þótt slökkt sé á svæðum þar sem þú hefur notað Google kanntu áfram að sjá auglýsingar sem byggjast á núverandi staðsetningu þinni og stöðum sem þú hefur skráð sem heimili og vinnu á Google-reikningnum þínum.

Ef þú skráir þig út kann Google auk þess að nota núverandi staðsetningu þína út frá IP-tölunni þinni eða úr tækinu til að birta þér auglýsingar, í samræmi við tækið þitt og forritsstillingar.

Hér má nálgast frekari upplýsingar um að kveikja og slökkva á sérsniðnum auglýsingum þegar þú ert útskráð(ur).

Google forrit
Aðalvalmynd