Hvernig Google notar mynstursgreiningu

Hvernig Google notar mynstursgreiningu til að bera kennsl á myndir

Tölvur „sjá“ ekki myndir og myndskeið á sama hátt og fólk. Þegar þú skoðar mynd sérðu ef til vill besta vin þinn fyrir framan húsið sitt. Frá sjónarhóli tölvunnar er sama mynd einfaldlega gagnahrúga sem hún túlkar kannski sem form og upplýsingar um litagildi. Þótt tölvan bregðist ekki við á sama hátt og þú þegar þú sérð myndina er hægt að þjálfa tölvuna til að þekkja tiltekin mynstur lita og forma. Til dæmis væri hægt að þjálfa tölvu til að þekkja algeng mynstur forma og lita sem finna má á stafrænni mynd af landslagi á borð við strönd eða hlut á borð við bíl. Þessi tækni hjálpar Google myndum að skipuleggja myndirnar þínar og gerir notendum kleift að finna hvaða mynd sem er með einfaldri leit.

Einnig væri hægt að þjálfa tölvu til að þekkja algeng mynstur forma og lita sem finna má á stafrænni mynd af andliti. Þetta ferli er þekkt sem andlitsgreining og er sú tækni sem gerir Google kleift að vernda friðhelgi þína í þjónustu á borð við Street View, þar sem tölvur reyna að finna andlit fólks sem kann að hafa staðið úti á götu þegar bíllinn sem tekur myndir fyrir Street View ók framhjá og gera þessi andlit óskýr.

Ef farið er dýpra í málin er hægt að nota sömu tækni og knýr andlitsgreiningu til að hjálpa tölvu að þekkja tiltekna eiginleika andlitsins sem greindist. Tiltekin mynstur geta t.a.m. bent til þess að viðkomandi sé að brosa eða sé með augun lokuð. Hægt er að nota upplýsingar á borð við þessar til að aðstoða við eiginleika á borð við tillögur Google mynda að kvikmyndum og öðrum brellum sem eru búnar til úr myndunum þínum og myndskeiðum.

Svipuð tækni knýr einnig eiginleika andlitsflokkunar sem er í boði í Google myndum í tilteknum löndum og sem hjálpar tölvum að bera kennsl á svipuð andlit og taka þau saman þannig að notendur eigi auðveldara með að leita í myndunum sínum og stjórna þeim. Frekari upplýsingar um andlitsflokkun er að finna í hjálparmiðstöð Google mynda.

Hvernig raddleit virkar

Raddleit gerir þér kleift að senda talaða fyrirspurn inn í Google leitarforrit í tæki í stað þess að slá hana inn. Raddleitin notar mynstursgreiningu til að umrita talað mál sem skrifaðan texta. Við sendum það sem sagt til netþjóna Google til að greina það sem þú sagðir.

Fyrir hverja raddfyrirspurn sem berst í gegnum raddleit geymum við tungumálið, landið og það sem kerfið giskaði á að sagt hefði verið. Við geymum það sem sagt er til að bæta þjónustu okkar, þ. á m. til að þjálfa kerfið okkar í að þekkja betur rétta leitarfyrirspurn ef þú hefur gefið samþykki fyrir slíkri gagnanotkun. Við sendum ekkert sem sagt er til Google nema þú hafir lýst yfir vilja til að nota raddleitareiginleikann (t.d. með því að ýta á hljóðnematáknið í flýtileitarstikunni eða á sýndarlyklaborðinu eða með því að segja „Google“ þegar flýtileitarstikan gefur til kynna að raddleitareiginleikinn sé í boði).

Google forrit
Aðalvalmynd