Reglur um óheimila notkun gervigreindar sem býr til efni

Síðast breytt: 17. desember 2024

Skapandi gervigreindarlíkön geta auðveldað þér að kanna, læra og skapa. Við ætlumst til að þú eigir í samskiptum við þau á skynsamlegan, löglegan og öruggan hátt. Eftirfarandi takmarkanir gilda um samskipti þín við skapandi gervigreind í vörum og þjónustu Google sem vísa til þessara reglna.

  1. Ekki taka þátt í hættulegu eða ólöglegu athæfi eða öðru athæfi sem brýtur gegn gildandi lögum eða reglugerðum. Þetta á meðal annars við um að búa til eða dreifa efni sem:
    1. tengist kynferðislegri misnotkun eða misneytingu barna.
    2. stuðlar að ofbeldisfullri öfgastefnu eða hryðjuverkum.
    3. stuðlar að einkalífsmyndum án samþykkis viðkomandi.
    4. stuðlar að sjálfsskaða.
    5. stuðlar að ólöglegu athæfi eða lögbrotum – til dæmis með leiðbeiningum um hvernig má búa til eða nálgast ólögleg efni, vörur eða þjónustu.
    6. brýtur gegn rétti annarra, þar á meðal rétti til persónuverndar og hugverkarétti – til dæmis með því að nota persónuupplýsingar eða lífkenni án samþykkis sem krafist er lögum samkvæmt.
    7. rekur eða fylgist með fólki án samþykkis þess.
    8. tekur sjálfvirkar ákvarðanir sem hafa skaðleg áhrif á réttindi einstaklinga án mannlegs eftirlits á sviðum þar sem áhætta er mikil – til dæmis á sviði atvinnu, lagalegra málefna, heilbrigðisþjónustu, fjármála, húsnæðis, trygginga eða félagslegrar þjónustu.
  2. Ekki stofna öryggi annarra eða þjónustu Google í hættu. Þetta á meðal annars við um að búa til eða dreifa efni sem stuðlar að:
    1. ruslpósti, vefveiðum eða spilliforritum.
    2. misnotkun, skaða, truflun eða rofi á innviðum eða þjónustu Google eða annarra.
    3. sniðgöngu á vernd gegn misnotkun eða öryggissíum – til dæmis með því að fá líkanið til að brjóta gegn reglum okkar.
  3. Ekki taka þátt í athöfnum sem eru kynferðislega grófar, ofbeldisfullar, hatursfullar eða skaðlegar. Þetta á meðal annars við um að búa til eða dreifa efni sem stuðlar að:
    1. hatri eða hatursorðræðu.
    2. áreitni, einelti, ógnun, misnotkun eða móðgun gegn öðrum.
    3. ofbeldi eða hvatningu til ofbeldis.
    4. kynferðislega grófu efni – til dæmis efni sem er búið til fyrir klám eða kynferðislega örvun.
  4. Ekki taka þátt í að veita villandi upplýsingar, í villandi framsetningu eða villandi athöfnum. Þetta á meðal annars við um
    1. svik, svindl eða aðrar blekkjandi athafnir.
    2. að líkja eftir einstaklingi (lifandi eða látnum) án skýrra upplýsinga um það, í þeim tilgangi að blekkja.
    3. að stuðla að villandi fullyrðingum um sérþekkingu eða getu á viðkvæmum sviðum – til dæmis á sviði heilbrigðismála, fjármála, opinberrar þjónustu eða laga, í þeim tilgangi að blekkja.
    4. Að greiða fyrir villandi fullyrðingum um stjórnsýslu, lýðræði eða skaðlega heilbrigðisstarfsemi, í þeim tilgangi að blekkja aðra.
    5. að veita rangar upplýsingar um uppruna efnis sem búið er til með gervigreind með því að fullyrða að það hafi alfarið verið búið til af manneskju, í því skyni að blekkja aðra.

Við kunnum að gera undantekningar á þessum reglum ef um er að ræða fræðandi, heimildalegt, vísindalegt eða listrænt gildi eða ef ávinningur almennings vegur þyngra en skaði sem hlýst af efninu.
Google forrit
Aðalvalmynd