Þetta er eldri útgáfa af persónuverndarstefnunni okkar. Skoða núverandi útgáfu eða allar fyrri útgáfur.

Persónuverndarstefna

Síðast breytt: 24. júní 2013 (skoða eldri útgáfur)

Hægt er að nýta sér þjónustu okkar á ótal mismunandi vegu – til að leita að og deila upplýsingum, til að eiga samskipti við aðra eða til að búa til nýtt efni. Við getum bætt þessa þjónustu enn frekar þegar þú deilir upplýsingum með okkur, til dæmis með því að stofna Google reikning – þá færðu leitarniðurstöður og auglýsingar sem eiga betur við og getur tengst öðrum notendum og deilt efni með þeim á mun einfaldari og hraðvirkari hátt. Þegar þú notar þjónustu okkar viljum við að þér sé fyllilega ljóst á hvaða hátt við notum upplýsingar og hvernig þú getur verndað persónuupplýsingar þínar.

Í persónuverndarstefnu okkar er útskýrt:

 • Hvaða upplýsingum við söfnum og hvers vegna við gerum það.
 • Hvernig þær upplýsingar eru notaðar.
 • Hvaða valkostir boði eru í boði, meðal annars til að fá aðgang að og uppfæra upplýsingarnar.

Við leggjum áherslu á að hafa stefnuna sem einfaldasta en ef þú þekkir ekki hugtök á borð við fótspor (e. cookies), IP-tölur, pixlamerki og vafra ættirðu að byrja á að lesa þér til um þessi lykilhugtök. Google er mjög í mun að vernda einkalíf þitt. Við biðjum þig því að gefa þér tíma til að kynna þér starfshætti okkar, hvort sem þú ert nýr notandi eða gamalkunnugur, og hafa samband ef spurningar vakna.

Upplýsingar sem við söfnum

Við söfnum upplýsingum til að geta veitt öllum notendum okkar betri þjónustu – allt frá því að finna út grundvallaratriði, svo sem hvaða tungumál þú notar, til flóknari atriða, svo sem hvaða auglýsingar gætu gagnast þér eða fólkinu sem skiptir þig mestu á netinu.

Upplýsingarnar sem við söfnum eru tvenns konar:

 • Upplýsingar sem þú veitir okkur. Til að geta notað ýmsa þjónustu okkar þarftu til dæmis að stofna Google reikning. Þegar þú gerir það biðjum við um ýmsar persónuupplýsingar, svo sem fullt nafn, netfang, símanúmer eða kreditkortanúmer. Við bjóðum margs konar möguleika á að deila efni og ef þú kýst að nýta þér þá verður þú hugsanlega beðin(n) um að búa til Google prófíl, sýnilegan öllum, þar sem nafn þitt og ljósmynd af þér kunna að birtast.

 • Upplýsingar sem berast okkur gegnum notkun þína á þjónustu okkar. Við munum hugsanlega safna upplýsingum um þá þjónustu sem þú notar og hvernig þú notar hana, til dæmis þegar þú ferð inn á vefsvæði þar sem auglýsingaþjónusta okkar er notuð eða þegar þú skoðar og notar auglýsingar og efni frá okkur með gagnvirkum hætti. Meðal slíkra upplýsinga má nefna:

  • Upplýsingar um tæki

   Við söfnum hugsanlega upplýsingum tengdum tækinu sem þú notar (svo sem um gerð vélbúnaðar, útgáfu stýrikerfis, einkvæm auðkenni tækja og farsímakerfið þitt, þar með talið farsímanúmerið). Google mun hugsanlega tengja einkvæm auðkenni tækja eða símanúmerið þitt við Google reikninginn þinn.

  • Upplýsingar úr notkunarskrá

   Þegar þú notar þjónustu okkar eða skoðar efni frá Google kann að vera að við söfnum og vistum tilteknar upplýsingar í notkunarskrám á netþjónum. Þetta gætu til dæmis verið:

   • ítarlegar upplýsingar um það hvernig þú notaðir þjónustu okkar, svo sem um leitarfyrirspurnir.
   • upplýsingar um símnotkun, svo sem um símanúmerið þitt, númer þess sem hringt var í, númer sem símtal var sent í, dagsetningu og tímasetningu símtala, lengd símtala, leiðarupplýsingar um SMS og hvaða gerðar símtölin voru.
   • IP-tala.
   • upplýsingar um atvik við notkun tækisins, svo sem hrun, virkni kerfis, stillingar vélbúnaðar, gerð vafra, tungumál vafra, dagsetningu og tímasetningu fyrirspurnar og tilvísunarslóð.
   • fótspor sem gætu auðkennt vafrann eða Google reikninginn þinn á einkvæman hátt.
  • Staðsetningarupplýsingar

   Þegar þú notar Google þjónustu með virka staðsetningareiginleika söfnum við hugsanlega og vinnum úr upplýsingum um raunstaðsetningu þína, til dæmis GPS-merkjum sem farsími eða fartölva sendir frá sér. Einnig notum við hugsanlega ýmsar tæknilegar aðferðir til að staðsetja notendur, svo sem gögn frá skynjara í tækinu þínu sem gætu til dæmis veitt upplýsingar um aðgangsstaði þráðlauss staðarnets og farsímamöstur í grennd við þig.

  • Einkvæm númer forrita

   Einkvæmt númer forrits kann að fylgja notkun tiltekinnar þjónustu. Þegar þú setur upp eða fjarlægir þá þjónustu verður það númer, sem og upplýsingar um uppsetninguna hjá þér (til dæmis stýrikerfið og útgáfunúmer forritsins), hugsanlega sent til Google, eða þegar þjónustan hefur reglubundið samskipti við netþjóna okkar, til dæmis vegna sjálfvirkra uppfærslna.

  • Staðbundin vistun

   Við munum hugsanlega safna og vista upplýsingar (þar með taldar persónuupplýsingar) staðbundið á tækinu þínu með búnaði eins og vefvistun úr vafra (þar með talið HTML 5) og skyndiminni forrita.

  • Fótspor og nafnlaus auðkenni

   Við notum ýmsar tæknilegar aðferðir til að safna og vista upplýsingar þegar þú notar Google þjónustu, til dæmis að senda eitt eða fleiri fótspor eða nafnlaus auðkenni í tækið þitt. Við notum einnig fótspor og nafnlaus auðkenni þegar þú átt virk samskipti við þjónustu sem við veitum samstarfsaðilum okkar aðgang að, til dæmis auglýsingasíður eða Google eiginleika sem birtast hugsanlega á öðrum síðum.

Hvernig við notum upplýsingarnar sem við söfnum

Við notum upplýsingar sem við söfnum úr allri þjónustu okkar til að veita, viðhalda, vernda og bæta þjónustuna, þróa nýja þjónustu og vernda bæði Google og notendur okkar. Við notum þessar upplýsingar einnig til að bjóða þér sérsniðið efni – svo sem leitarniðurstöður og auglýsingar sem eiga betur við fyrir þig.

Við munum hugsanlega nota nafnið sem þú gafst upp á Google prófílnum þínum í hverri þeirri þjónustu á okkar vegum sem krefst innskráningar á Google reikning. Að auki er hugsanlegt að við skiptum eldri nöfnum, tengdum Google reikningnum þínum, út fyrir það nafn til að tryggja að þú birtist alltaf undir sama nafni, hvaða þjónustu sem þú ert að nota. Ef aðrir notendur hafa þegar netfang þitt eða aðrar persónugreinanlegar upplýsingar um þig kann að vera að þeir fái að sjá upplýsingar sem þú hefur gert sýnilegar almenningi á Google prófílnum þínum, svo sem nafn þitt og ljósmynd af þér.

Þegar þú átt samskipti við Google kann að vera að við geymum afrit af samskiptunum til að auðvelda úrlausnir vandamála sem upp geta komið. Við munum hugsanlega nota netfangið þitt til að upplýsa þig um þjónustu okkar, til dæmis láta þig vita af væntanlegum breytingum eða endurbótum.

Við notum upplýsingar sem við söfnum með fótsporum og öðrum tæknilegum aðferðum, svo sem pixlamerkjum, til að gera upplifun þína ánægjulegri og bæta þjónustuna á allan hátt. Þú getur til dæmis breytt tungumálastillingum þínum og þá getum við boðið þér þjónustu á því tungumáli sem þú kýst helst. Þegar við birtum þér sérsniðnar auglýsingar munum við ekki tengja fótspor eða nafnlaus auðkenni við efnisflokka sem teljast viðkvæmir, svo sem kynþátt, trúarbrögð, kynhneigð eða heilsufar.

Hugsanlega notum við persónuupplýsingar úr einni þjónustu samhliða upplýsingum, þ.m.t. persónuupplýsingum, úr annarri Google þjónustu – til dæmis til að auðvelda þér að deila efni með fólkinu sem þú þekkir. Við munum ekki nota upplýsingar úr DoubleClick-fótsporum samhliða persónugreinanlegu innihaldi nema við fáum yfirlýst samþykki frá þér.

Við munum ekki nota upplýsingar frá þér í öðrum tilgangi en þeim sem lýst er í persónuverndarstefnunni, nema að fengnu samþykki frá þér.

Google tekur við og vinnur úr persónuupplýsingum á netþjónum sínum í mörgum löndum um víða veröld. Hugsanlega verður unnið úr persónuupplýsingum þínum á netþjóni í öðru landi en þínu heimalandi.

Gegnsæi og valkostir

Fólk hefur mismunandi áherslur varðandi persónuvernd. Markmið okkar er að öllum sé ljóst hvaða upplýsingum við söfnum til að notendur geti tekið upplýsta ákvörðun um hvernig þær eru notaðar. Þú getur til dæmis:

 • Skoðað og stjórnað tilteknum gerðum upplýsinga sem tengdar eru Google reikningnum þínum í gegnum stjórnborð Google.
 • Skoðaðu og breyttu vali þínu varðandi auglýsingar, til dæmis flokkum sem gætu vakið áhuga þinn, í auglýsingastillingunum. Með þeim getur þú einnig afþakkað ýmsa auglýsingaþjónustu frá Google.
 • Notað stillingatækið okkar til að skoða og stilla hvernig Google prófíllinn þinn birtist einstaka notendum.
 • Stjórna því með hverjum þú deilir upplýsingum.
 • Sótt upplýsingar frá margs konar þjónustu á okkar vegum.

Þú getur einnig stillt vafrann þinn þannig að hann útiloki öll fótspor, þ. á m. fótspor tengd þjónustu okkar, eða láti vita þegar við biðjum um að fá að nota fótspor. Hins vegar er mikilvægt að muna að margar af þjónustusíðum okkar munu hugsanlega ekki virka að fullu ef fótspor eru gerð óvirk. Til dæmis er hugsanlegt að við getum ekki munað kjörstillingar tungumáls.

Upplýsingar sem þú deilir

Í mörgum tilvikum er þér heimilt að deila upplýsingum með öðrum gegnum þjónustu okkar. Hafðu í huga að þegar þú deilir upplýsingum opinberlega kunna þær að verða skráðar sem uppflettiorð fyrir leitarvélar, þar með talið Google. Við bjóðum þér ýmsa valkosti varðandi það að deila efninu þínu eða fjarlægja það.

Að fá aðgang að og uppfæra persónuupplýsingar þínar

Stefna okkar er að veita þér aðgang að öllum persónuupplýsingum um þig þegar þú notar þjónustu okkar. Reynist þær upplýsingar rangar leggjum við áherslu á að þú getir uppfært þær eða eytt þeim á fljótlegan og einfaldan hátt, svo fremi sem við þurfum ekki að halda þeim til haga af lagalegum eða viðskiptalegum ástæðum. Þegar þú uppfærir persónuupplýsingar kann að vera að við biðjum þig að auðkenna þig áður en við vinnum úr beiðninni.

Beiðnum sem innihalda óígrundaðar endurtekningar, krefjast óraunhæfra tæknilegra inngripa (svo sem að þróa nýtt stjórnkerfi eða gera grundvallarbreytingar á fyrirliggjandi verklagi), fela það í sér að persónuöryggi annarra kynni að vera stefnt í hættu eða yrðu mjög erfiðar í framkvæmd (til dæmis sem tengjast upplýsingum vistuðum á spólum) kann að verða hafnað.

Við munum veita aðgang að upplýsingum og tækifæri til leiðréttinga án endurgjalds hvenær sem unnt er, nema slíkt feli í sér óraunhæfa fyrirhöfn. Markmið okkar er að veita þjónustu þannig að upplýsingar séu varðar fyrir skemmdum, hvort sem er af ásetningi eða í ógáti. Af þessum sökum kann að vera að afritum vistuðum á virkum netþjónum okkar verði ekki eytt tafarlaust þegar þú eyðir upplýsingum úr þjónustu okkar og að upplýsingarnar verði ekki fjarlægðar úr öryggisafritunarkerfum okkar.

Upplýsingar sem við deilum

Við deilum ekki persónuupplýsingum með fyrirtækjum, stofnunum og einstaklingum utan Google nema einhver eftirfarandi skilyrða eigi við:

 • Leyfi frá þér liggi fyrir

  Við deilum persónuupplýsingum með fyrirtækjum, stofnunum og einstaklingum utan Google ef þú hefur gefið heimild til þess. Við förum fram á valkvætt samþykki áður en viðkvæmum persónuupplýsingum er miðlað.

 • Með lénsstjórum

  Ef Google reikningnum þínum er stjórnað af lénsstjóra (til dæmis fyrir notendur Google Apps) mun lénsstjórinn þinn, sem og allir endursöluaðilar sem veita fyrirtæki þínu notendaþjónustu, hafa aðgang að upplýsingum tengdum Google reikningnum þínum (þar með töldu netfanginu þínu og ýmsum öðrum gögnum). Lénsstjórinn þinn kann að hafa heimild til að:

  • skoða tölfræðileg gögn varðandi reikninginn þinn, svo sem varðandi forritin sem þú hefur sett upp.
  • breyta aðgangsorði reikningsins.
  • loka aðgangi þínum að reikningnum, tímabundið eða varanlega.
  • nálgast eða vista upplýsingar sem eru vistaðar inni á reikningnum þínum.
  • fá sendar reikningsupplýsingar í því skyni að fullnægja viðeigandi lagaskilyrðum, reglugerðum, lagalegum ferlum eða bindandi stjórnvaldsákvörðunum.
  • takmarka getu þína til að eyða eða breyta upplýsingum eða persónuverndarstillingum.

  Kynntu þér persónuverndarstefnu lénsstjórans þíns til frekari upplýsinga.

 • Til ytri greiningar gagna

  Við veitum hlutdeildarfélögum okkar eða öðrum fyrirtækjum eða einstaklingum sem við treystum persónuupplýsingar til úrvinnslu fyrir okkar hönd, á grundvelli leiðbeininga frá okkur og í samræmi við persónuverndarstefnu okkar og aðrar þær trúnaðar- og öryggisreglur sem við eiga.

 • Af lagalegum ástæðum

  Við deilum persónuupplýsingum með fyrirtækjum, stofnunum eða einstaklingum utan Google ef við teljum, í góðri trú, að aðgangur að þeim, notkun á þeim eða birting á þeim teljist nauðsynleg til að:

  • uppfylla viðeigandi ákvæði laga, reglugerða, lagalegra ferla eða bindandi stjórnvaldsákvarðanir.
  • framfylgja viðeigandi þjónustuskilmálum, þar með talið að rannsaka hugsanleg misnotkunartilvik.
  • greina, koma í veg fyrir eða bregðast á annan hátt við svikum, öryggis- eða tæknivandamálum.
  • verja réttindi, eignir og öryggi Google, notenda okkar eða almenning fyrir skemmdarverkum, eins og lög mæla fyrir um eða leyfa.

Við munum hugsanlega deila uppsöfnuðum, ópersónugreinanlegum upplýsingum opinberlega og með samstarfsaðilum okkar, svo sem útgefendum, auglýsendum og tengdum síðum. Við munum til dæmis hugsanlega deila upplýsingum á opinberum vettvangi í því skyni að sýna fram á þróun í almennri notkun á þjónustu okkar.

Ef Google tekur þátt í samruna, yfirtöku eða sölu eigna munum við eftir sem áður tryggja trúnað um allar persónuupplýsingar og senda þeim notendum sem hlut eiga að máli tilkynningu áður en persónuupplýsingar eru fluttar eða falla undir nýja persónuverndarstefnu.

Upplýsingaöryggi

Við leggjum okkur fram við að vernda Google og notendur okkar fyrir óheimilum aðgangi eða óheimilum breytingum, birtingu eða skemmdarverkum á upplýsingum í okkar vörslu. Sérstaklega má nefna að:

 • Í mörgum tilvikum er þjónusta okkar dulkóðuð með SSL.
 • Þegar þú skráir þig inn á Google reikninginn þinn stendur þér til boða staðfesting í tveimur skrefum og eiginleikar fyrir örugga vefleit í Google Chrome.
 • Við endurskoðum verkferli okkar við söfnun, geymslu og úrvinnslu upplýsinga, þar með taldar tæknilegar öryggisráðstafanir, til að verja okkur fyrir kerfisaðgangi án heimilda.
 • Við takmörkum aðgang að persónuupplýsingum við starfsfólk Google, verktaka og umboðsmenn sem þurfa að hafa slíkar upplýsingar í því skyni að geta unnið úr þeim fyrir okkur, og sem lúta ströngum samningsbundnum skilyrðum varðandi trúnað og kunna að sæta refsiaðgerðum eða samningsrofi ef þau skilyrði eru ekki uppfyllt.

Gildissvið

Persónuverndarstefna okkar er í gildi varðandi alla þjónustu veitta af Google Inc. og hlutdeildarfélögum þess, þar með talin þjónusta sem er í boði á öðrum vefsvæðum (svo sem auglýsingaþjónusta okkar), en ekki varðandi þjónustu með sértæka persónuverndarstefnu, sem þessi persónuverndarstefna gildir ekki um.

Persónuverndarstefna okkar tekur ekki til þjónustu sem veitt er af öðrum fyrirtækjum eða einstaklingum, þar með taldar vörur eða vefsvæði sem kunna að birtast í leitarniðurstöðum þínum, vefsvæði sem kunna að bjóða þjónustu tengda Google eða önnur vefsvæði með tengla á vefsvæðum Google. Persónuverndarstefna okkar tekur ekki til verkferla fyrir upplýsinganotkun hjá öðrum fyrirtækjum og stofnunum sem auglýsa þjónustu frá okkur og sem kunna að nota fótspor, pixlamerki og aðrar tæknilegar aðferðir til að miðla og bjóða upp á viðkomandi auglýsingar.

Framkvæmd

Við metum reglubundið hvernig við uppfyllum ákvæði persónuverndarstefnu okkar. Við fylgjum einnig ýmsum reglurömmum sjálfseftirlits. Þegar okkur berast formlegar, skriflegar kvartanir höfum við samband við kvörtunaraðilann til að fylgja málinu eftir. Við eigum samstarf við viðeigandi eftirlitsaðila, meðal annars persónuverndaryfirvöld á hverjum stað, um úrlausn hvers kyns kvartana vegna flutnings á persónuupplýsingum sem ekki tekst að leysa með notendum án milliliða.

Breytingar

Persónuverndarstefna okkar kann að taka breytingum af og til. Við munum ekki takmarka réttindi þín samkvæmt þessari persónuverndarstefnu án yfirlýsts samþykkis frá þér. Við munum auglýsa allar áætlaðar breytingar á stefnunni á þessari síðu. Reynist breytingarnar veigamiklar munum við kynna þær enn ítarlegar (verulegar breytingar á stefnunni hvað varðar tilteknar þjónustur verða kynntar með tölvupósti). Við munum einnig hafa eldri útgáfur af þessari persónuverndarstefnu aðgengilegar í skráasafni okkar.

Verklag á tiltekinni þjónustu

Eftirfarandi yfirlýsingar gera grein fyrir sértækri persónuverndarstefnu fyrir mismunandi vöruflokka og þjónustu Google sem þú kannt að nota:

Google forrit
Aðalvalmynd