Hvernig Google notar staðsetningarupplýsingar

Hvers vegna notar Google staðsetningarupplýsingar?

Í persónuverndarstefnu Google er því lýst hvernig við förum með upplýsingar sem verða til við notkun þína á vöru og þjónustu Google, þ.m.t. staðsetningarupplýsingar. Á þessari síðu eru veittar viðbótarupplýsingar um staðsetningarupplýsingar sem við söfnum og hvernig þú getur stjórnað þeim.

Google leitast við að veita gagnlega og innihaldsríka upplifun, en í því samhengi spila staðsetningarupplýsingar stórt hlutverk. Hvort sem það er til að veita þér akstursleiðsögn, ganga úr skugga um að leitarniðurstöður innihaldi hluti í nágrenni við þig eða til að sýna þér annatíma veitingahúsa getur staðsetning bætt upplifun þína í þjónustu Google og gert hana gagnlegri. Staðsetningarupplýsingar auðvelda okkur einnig að veita þér ákveðna grunneiginleika, eins og vefsvæði á réttu tungumáli eða til að tryggja öryggi Google þjónustu.

Hvernig veit Google staðsetningu mína?

Í samræmi við þær vörur sem þú notar og þær stillingar sem þú velur geturðu veitt Google ólíkar tegundir staðsetningarupplýsinga sem eru nauðsynlegar til að virkja eða bæta þjónustu. Staðsetningu má greina með merkjum í rauntíma, eins og IP-tölu eða staðsetningu tækis, en einnig með fyrri virkni á vefsvæðum og í þjónustu Google svo að hægt sé að sérsníða upplifun þína. Hér fyrir neðan eru meginleiðir okkar til að fá upplýsingar um staðsetningu þína.

Með IP-tölu nettengingarinnar þinnar

Netþjónustan úthlutar IP-tölu (einnig kölluð vistfang tölvu) til tækisins þíns, en hún er nauðsynleg til að hægt sé að nota internetið. IP-tölur eru notaðar til að tengja tækið þitt við vefsvæði og þjónustu sem þú notar. IP-tölur eru gróflega byggðar á staðsetningu. Það þýðir að öll vefsvæði sem þú notar, þ.m.t. google.com, kunna að fá einhverjar upplýsingar um það svæði sem þú ert á.

Líkt og önnur netþjónusta getur Google notað upplýsingar um svæðið sem þú ert á til að veita þér ákveðna grunnþjónustu. Með því að áætla hvaða svæði þú ert á getur Google til dæmis birt þér viðeigandi niðurstöður og varið reikninginn þinn með því að greina óvenjulega virkni, svo sem innskráningu í nýrri borg.

Úr fyrri aðgerðum

Við getum ályktað að þú hafir áhuga á stað jafnvel þótt tækið segi okkur ekki nákvæmlega hvar þú ert þegar þú notar þjónustu okkar. Ef þú leitar til dæmis að „kaffihús í París“ gætum við gert ráð fyrir því að þú viljir sjá staði nálægt París og birt niðurstöður yfir kaffihús þar. Sum atriði fyrri aðgerða, eins og fyrri leit, geta einnig falið í sér það svæði sem þú varst á þá. Þess konar upplýsingar kunna að vera geymdar á reikningnum þínum, eftir því hverjar stillingar þínar eru, og notaðar sem inntak, til dæmis til að ákvarða hvort þú sért enn í París þegar þú leitar að einhverju seinna.

Úr merktum stöðum

Þú gætir einnig viljað gefa upp mikilvægar staðsetningar, eins og heimilisfang eða vinnustað. Það gæti hjálpað þér að finna leiðarlýsingu á fljótlegri hátt með því að nota sjálfkrafa heimilisfang og vinnustað. Þessar upplýsingar geta einnig verið notaðar til að hafa áhrif á niðurstöður sem við birtum. Nánar

Úr tækjunum þínum

Mörg tæki á borð við síma og tölvur geta reiknað út nákvæma staðsetningu sína. Þú getur leyft Google og öðrum forritum að bjóða þér upp á gagnlega eiginleika út frá staðsetningu tækisins. Ef þú ert til dæmis orðin(n) sein(n) að hitta vini þína viltu væntanlega nota leiðsagnarforrit til að finna fljótlegustu leiðina á áfangastað. Til að fá nákvæma leiðarlýsingu þarftu hugsanlega að kveikja á staðsetningu tækisins og veita forritinu aðgangsheimild að henni. Þegar leitað er að einhverju á borð við „kaffihús“, „strætóstoppistöð“ eða „hraðbanki“ verða niðurstöðurnar yfirleitt gagnlegri ef nákvæm staðsetning er tiltæk.

Ef þú velur að kveikja á staðsetningu Android tækis geturðu notað eiginleika eins og leiðsögn, að veita forriti aðgang að núverandi staðsetningu þinni eða að finna símann þinn. Þú getur líka valið hvaða forrit hafa heimild til að nota staðsetningu tækisins með einföldum stillingum sem gera þér kleift að slökkva eða kveikja á heimild fyrir einstök forrit. Þú sérð hvenær forrit biður um að nota GPS-staðsetningu símans þegar „Staðsetning“ birtist efst á skjánum. Nánar

Staðsetningarþjónusta Google

Í flestum Android tækjum veitir Google, sem netþjónustufyrirtæki, staðsetningarþjónustu sem kallast „Staðsetningarþjónusta Google“ (GLS), þekkt sem „Staðsetningarnákvæmni Google“ í Android 9 og nýrri útgáfum. Tilgangur þessarar þjónustu er að birta nákvæmari staðsetningu tækja og bæta staðsetningarnákvæmni almennt. Flestir farsímar eru með innbyggt GPS sem notar merki frá gervitunglum til að ákvarða staðsetningu tækja. Með staðsetningarþjónustu Google er aftur á móti hægt að safna upplýsingum frá nálægum Wi-Fi netum, farsímakerfum og skynjurum tækis til að ákvarða staðsetningu tækisins þíns. Það er gert með því að safna reglulega staðsetningargögnum úr tækinu og nota þau á nafnlausan hátt til að bæta staðsetningarnákvæmni.

Þú getur slökkt á staðsetningarþjónustu Google hvenær sem er í staðsetningarstillingum tækisins. Staðsetning tækisins heldur áfram að virka jafnvel þótt slökkt sé á staðsetningarþjónustunni, en tækið reiðir sig aðeins á GPS til að ákvarða staðsetningu tækis fyrir forrit með nauðsynlegar heimildir. Staðsetningarþjónusta Google er ólík staðsetningarstillingum tækisins. Nánar

Stillingar og heimildir í Android stjórna því hvort skynjarar tækisins (eins og GPS) eða staðsetning frá símakerfi (eins og staðsetningarþjónusta Google) er notuð til að ákvarða staðsetningu þína og hvaða forrit hafa aðgang að þeirri staðsetningu. Þær hafa ekki áhrif á aðrar aðferðir sem vefsvæði og forrit nota til að áætla staðsetningu þína, svo sem IP-tölu.

Hvernig er staðsetning vistuð á Google reikningnum mínum?

Google kann að vista staðsetningarupplýsingar á Google reikningnum þínum, eftir því hvaða vörur og þjónustu frá Google þú notar og hvaða stillingar þú velur. Tveir algengustu staðirnir sem þessar upplýsingar eru vistaðar á eru staðsetningarferill og vef- og forritavirkni.

Staðsetningarferill Google

Ef þú velur að kveikja á staðsetningarferli og tækið tilkynnir staðsetningu verður upplýsingum um nákvæma staðsetningu innskráðra tækja safnað og þær geymdar, jafnvel þótt þú sért ekki að nota vöru eða þjónustu frá Google. Þetta hjálpar til við að búa til tímalínu þína þar sem gögn staðsetningarferils eru geymd og hugsanlega notuð fyrir tillögur á Google í framtíðinni. Þú getur yfirfarið, breytt og eytt því sem hefur verið vistað á tímalínu þína hvenær sem er.

Ef kveikt er á staðsetningarferli færðu sérsniðnari upplifun í þjónustu Google — tillögur að veitingastöðum í Google kortum sem byggjast á stöðum sem þú hefur heimsótt, rauntímaupplýsingar um hvenær best sé að fara úr eða í vinnu til að vera á undan umferðinni og sjálfvirk albúm frá stöðum sem þú hefur heimsótt í Google myndum.

Til að sjá hvort þú hafir kveikt á staðsetningarferli þínum skaltu skoða Virknistýringar. Hugsanlega þarftu að skrá þig inn og þar geturðu séð hvort kveikt sé á stýringunni. Þú getur gert hlé á skráningu nýrra gagna í staðsetningarferli þínum. Fyrri staðsetningargögn eru aftur á móti áfram vistuð þar til þú eyðir þeim. Nánar

Þótt þú eyðir gögnum staðsetningarferils kann að vera að staðsetningargögn séu vistuð annars staðar — eins og í vef- og forritavirkni.

Vef- og forritavirkni

Ef kveikt er á vef- og forritavirkni eru leitarorðin þín og virkni í margri annarri þjónustu Google vistuð á Google reikningnum þínum. Virknin sem vistuð er í vef- og forritavirkni kann einnig að innihalda staðsetningarupplýsingar. Ef þú slærð til dæmis inn „veður“ í leit og færð niðurstöður um veður sem byggjast á staðsetningu þinni er þessi virkni, þar á meðal staðsetningin sem notuð var til að veita þessar niðurstöður, vistuð í vef- og forritavirkni. Staðsetningin sem notuð er og geymd í vef- og forritavirkni getur komið frá merkjum eins og IP-tölu tækisins, fyrri virkni eða úr tækinu, ef þú hefur valið að kveikja á staðsetningarstillingum tækisins.

Ef kveikt er á vef- og forritavirkni getum við sýnt þér gagnlegri leitarniðurstöður, auglýsingar sem eru viðeigandi fyrir þig og ítarlegri tillögur – á borð við það þegar þú sérð tillögur út frá því sem þú hefur leitað að áður. Þú getur skoðað og eytt því sem er í vef- og forritavirkni þinni eða gert hlé á því í Google reikningnum þínum. Ef gert er hlé á vef- og forritavirkni er hvorki leit þín í framtíðinni né virkni úr annarri Google þjónustu vistuð. Jafnvel þótt þú hafir eytt gögnum í vef- og forritavirkni kunna staðsetningargögn að vera vistuð annars staðar — t.d. í staðsetningarferli þínum.

Til að sjá hvort þú hafir kveikt á vef- og forritavirkni skaltu skoða Virknistýringar. Hugsanlega þarftu að skrá þig inn og þar geturðu séð hvort kveikt sé á stýringunni. Nánar

Hvernig er staðsetning notuð til að birta auglýsingar?

Birting auglýsinga kann að byggjast á almennri staðsetningu þinni, til dæmis gróflega áætlaðri staðsetningu þinni út frá IP-tölu tækisins. Þú sérð einnig auglýsingar út frá virkni þinni á Google reikningnum, eftir því hvaða stillingar þú velur fyrir sérsniðnar auglýsingar. Það er meðal annars virkni sem geymd er í vef- og forritavirkni, sem hægt er að nota til að birta gagnlegri auglýsingar. Ef þú hefur til dæmis kveikt á staðsetningarferli og heimsækir reglulega skíðasvæði gætirðu farið að sjá auglýsingar fyrir skíðabúnað þegar þú horfir á myndbönd á YouTube. Google notar einnig staðsetningarferil á nafnlausan og uppsafnaðan hátt, hjá notendum sem hafa kosið að kveikja á eiginleikanum, til að hjálpa auglýsendum að mæla hversu oft auglýsingaherferð á netinu eykur umferð í verslanir þeirra eða á vefsvæði. Við deilum ekki staðsetningarferlinum þínum eða öðrum persónuupplýsingum með auglýsendum.

Þú hefur stjórnina þegar kemur að gögnum sem geymd eru á Google reikningnum og þú getur slökkt á sérsniðnum auglýsingum hvenær sem er. Þegar slökkt er á sérsniðnum auglýsingum notar Google ekki gögn sem geymd eru á Google reikningnum þínum til að sýna þér gagnlegri auglýsingar.

Google forrit
Aðalvalmynd