Þjónustuskilmálar Google
Síðast breytt: 1. mars 2012
Velkomin(n) á Google!
Þakka þér fyrir að nota vörur okkar og þjónustu („þjónustuna“). Þjónustan er veitt af Google Inc. („Google“), 1600 Amphitheatre Parkway, Mountain View, CA 94043, Bandaríkjunum.
Með því að nota þjónustu okkar samþykkir þú þessa skilmála. Lestu skilmálana vandlega.
Þjónusta okkar er mjög fjölbreytt, þannig að stundum eiga viðbótarskilmálar og -vöruskilyrði við, svo sem aldurstakmörk. Viðbótarskilmálar fylgja þeirri þjónustu sem þeir eiga við um. Þeir viðbótarskilmálar verða hluti af samningi þínum við okkur ef þú notar þá þjónustu.
Notkun á þjónustu okkar
Fylgja verður öllum reglum sem eru gerðar aðgengilegar innan hverrar þjónustu.
Ekki misnota þjónustu okkar. Til dæmis má ekki trufla nokkra þjónustu okkar eða reyna að fá aðgang að henni með öðrum leiðum en með því viðmóti og þeim leiðbeiningum sem við veitum. Aðeins má nota þjónustu okkar eins og lög leyfa, þar með talin viðeigandi lög og reglugerðir um útflutning og endurútflutning. Við munum hugsanlega loka, tímabundið eða varanlega, fyrir þjónustu okkar til þín ef þú fylgir ekki skilmálum okkar og reglum eða ef við erum að rannsaka grun um misferli.
Notkun á þjónustu okkar veitir þér ekki eignarhald á neinum hugverkaréttindum í þjónustu okkar eða því efni sem þú færð aðgang að. Þú mátt ekki nota efni frá þjónustu okkar nema með leyfi frá eiganda þess eða ef lög leyfa með öðrum hætti notkun þess. Þessir skilmálar veita þér ekki rétt til að nota nein vörumerki eða myndmerki (e. logo) sem notuð eru í þjónustu okkar. Ekki fjarlægja, dylja eða breyta neinum lagatilkynningum sem birtast í eða meðfram þjónustu okkar.
Þjónusta okkar birtir nokkuð af efni sem er ekki frá Google. Þetta efni er alfarið á ábyrgð þess aðila sem gerir það aðgengilegt. Við munum hugsanlega fara yfir efni til að ákvarða hvort það er ólöglegt eða brýtur í bága við reglur okkar, og hugsanlega munum við fjarlægja eða neita að birta efni sem við höfum ástæðu til að telja að brjóti í bága við reglur okkar eða lögin. Það merkir hins vegar ekki nauðsynlega að við förum yfir efni og skal því ekki gera ráð fyrir því að við gerum það.
Í tengslum við notkun þína á þjónustunni sendum við þér hugsanlega þjónustutilkynningar, skilaboð frá stjórnendum og aðrar upplýsingar. Þú getur afþakkað sumar af þessum orðsendingum.
Google reikningurinn þinn
Þú þarft hugsanlega Google reikning til að geta notað suma þjónustu okkar. Þú getur stofnað þinn eigin Google reikning eða þér getur verið úthlutað Google reikningi af stjórnanda, svo sem vinnuveitanda þínum eða menntastofnun. Ef þú ert að nota Google reikning sem þér var úthlutað af stjórnanda eiga aðrir skilmálar eða viðbótarskilmálar hugsanlega við og stjórnandinn getur hugsanlega verið með aðgang að reikningnum þínum eða getur gert reikninginn óvirkan.
Farðu eftir þessum leiðbeiningum ef þú verður var/vör við óleyfilega notkun á aðgangsorði þínu eða reikningi.
Persónuvernd og höfundarréttarvörn
Í persónuverndarstefnu Google er útskýrt hvernig við meðhöndlum persónuupplýsingar þínar og verndum þær þegar þú notar þjónustu okkar. Þegar þú notar þjónustu okkar samþykkir þú að Google megi nota slíkar upplýsingar í samræmi við persónuverndarstefnu okkar.
Við bregðumst við ábendingum um meint brot gegn höfundarrétti og lokum reikningum þeirra sem verða ítrekað uppvísir að slíkum brotum í samræmi við ferli það sem fram kemur í bandarískum höfundarréttarlögum.
Við veitum handhöfum höfundarréttar upplýsingar sem hjálpa þeim að hafa umsjón með hugverkum sínum á netinu. Ef þú telur að einhver sé að brjóta gegn höfundarrétti þínum og vilt tilkynna okkur það finnurðu upplýsingar í hjálparmiðstöðinni um sendingu tilkynninga og stefnu Google um að svara tilkynningum.
Efni þitt í þjónustu okkar
Sum þjónusta okkar leyfir þér að senda inn efni. Þú heldur eftir eignarhaldi á öllum hugverkaréttindum þínum varðandi það efni. Í stuttu máli sagt: Þú átt þitt efni áfram.
Þegar þú hleður upp eða sendir inn efni á þjónustu okkar með öðrum hætti gefur þú Google (og samstarfsaðilum okkar) leyfi á heimsvísu til að nota, hýsa, geyma, afrita, breyta, búa til afleidd verk (svo sem þau sem verða til við þýðingar, aðlaganir eða aðrar breytingar sem við gerum til að efnið þitt virki betur með þjónustu okkar), miðla, birta, spila opinberlega, birta opinberlega og dreifa efninu. Réttindin sem þú veitir með þessu leyfi eru í þeim takmarkaða tilgangi að starfrækja, kynna og bæta þjónustu okkar og þróa nýja. Þetta leyfi gildir áfram jafnvel þótt þú hættir að nota þjónustu okkar (til dæmis vegna skráningar á fyrirtæki sem þú hefur bætt við Google kort). Sum þjónusta býður upp á leiðir til að fá aðgang að og fjarlægja efni sem hefur verið veitt þeirri þjónustu. Sum þjónusta inniheldur líka skilmála eða stillingar sem þrengja notkunarsvið okkar á því efni sem er sent þeirri þjónustu. Gættu þess að þú hafir nauðsynleg réttindi til að veita okkur þetta leyfi fyrir efni sem þú sendir þjónustu okkar.
Frekari upplýsingar um hvernig Google notar og geymir efni er að finna í persónuverndarstefnu eða viðbótarskilmálum hverrar þjónustu. Ef þú sendir inn álit eða tillögur um þjónustu okkar megum við nota álitið og tillögurnar án skuldbindinga gagnvart þér.
Um hugbúnað í þjónustu okkar
Þegar þjónusta krefst hugbúnaðar sem hægt er að hlaða niður eða inniheldur slíkan hugbúnað getur hugbúnaðurinn hugsanlega uppfærst sjálfkrafa í tækinu þínu þegar ný útgáfa eða eiginleiki verður tiltækur. Sum þjónusta leyfir þér hugsanlega að breyta stillingum sjálfvirkrar uppfærslu.
Google gefur þér persónulegt, gjaldfrjálst, óframseljanlegt og einkaréttarfrjálst leyfi á heimsvísu til notkunar á hugbúnaði sem Google veitir þér sem hluta af þjónustunni. Þetta leyfi hefur eingöngu þann tilgang að gera þér kleift að nota og njóta kosta þjónustunnar eins og Google býður hana fram, á þann hátt sem þessir skilmálar leyfa. Óheimilt er að afrita, breyta, dreifa, selja eða leigja nokkurn hluta af þjónustu okkar eða innifalinn hugbúnað. Ekki má heldur vendismíða eða reyna að ná fram frumkóða hugbúnaðarins nema lög banni slíkar takmarkanir eða með skriflegu leyfi okkar.
Opinn hugbúnaður er okkur mikilvægur. Hluti þess hugbúnaðar sem notaður er í þjónustu okkar kann að vera veittur með leyfi fyrir opinn hugbúnað sem við látum þér í té. Í leyfinu fyrir opinn hugbúnað kunna að vera ákvæði sem hnekkja einhverjum af þessum skilmálum með beinum hætti.
Breytingar og stöðvun á þjónustu okkar
Við erum stöðugt að breyta og bæta þjónustu okkar. Við bætum hugsanlega við eða fjarlægjum virkni eða eiginleika, eða lokum hugsanlega fyrir eða hættum alfarið með þjónustu.
Þótt við viljum síður missa þig getur þú hætt að nota þjónustu okkar hvenær sem þú kýst. Google getur líka hvenær sem er hætt að veita þér þjónustu eða sett nýjar takmarkanir á þjónustu sína.
Við lítum svo á að þú eigir gögnin þín og að mikilvægt sé að varðveita aðgang þinn að þeim. Ef við hættum að bjóða tiltekna þjónustu reynum við eftir mætti að tilkynna þér það með góðum fyrirvara svo að þú getir nálgast þær upplýsingar sem þar eru geymdar.
Ábyrgð okkar og fyrirvarar
Við veitum þjónustu okkar eftir bestu getu, að því marki sem sanngjarnt getur talist í ljósi viðskiptasjónarmiða, og vonum að þú njótir hennar. En sumu getum við ekki lofað um þjónustu okkar.
HVORKI GOOGLE NÉ BIRGJAR ÞESS EÐA DREIFINGARAÐILAR GEFA NEIN SÉRTÆK FYRIRHEIT UM ÞJÓNUSTUNA AÐ UNDANSKILDU ÞVÍ SEM ER SKÝRT TEKIÐ FRAM Í ÞESSUM SKILMÁLUM EÐA VIÐBÓTARSKILMÁLUM. TIL DÆMIS TÖKUM VIÐ EKKI Á OKKUR NEINAR SKULDBINDINGAR VARÐANDI EFNI INNAN ÞJÓNUSTUNNAR, SÉRTÆKA EIGINLEIKA HENNAR, ÁREIÐANLEIKA, FRAMBOÐ EÐA GETU TIL AÐ UPPFYLLA ÞARFIR ÞÍNAR. ÞJÓNUSTAN ER VEITT EINS OG HÚN KEMUR FYRIR.
Í SUMUM LÖGSAGNARUMDÆMUM ER KVEÐIÐ Á UM VISSA ÁBYRGÐ, SVO SEM ÓBEINA ÁBYRGÐ VEGNA SÖLUHÆFNI, NOTAGILDI Í ÁKVEÐNUM TILGANGI OG HELGI EIGNARRÉTTAR. AÐ ÞVÍ MARKI SEM LÖG LEYFA UNDANSKILJUM VIÐ OKKUR ALLRI ÁBYRGÐ.
Bótaábyrgð vegna þjónustu okkar
ÞEGAR LÖG LEYFA VERÐA GOOGLE, BIRGJAR ÞESS OG DREIFINGARAÐILAR EKKI ÁBYRG FYRIR GLÖTUÐUM HAGNAÐI, TEKJUM EÐA GÖGNUM, FJÁRHAGSTJÓNI EÐA ÓBEINUM SKAÐA, SÉRSTÖKUM, AFLEIDDUM EÐA REFSISKAÐA.
AÐ ÞVÍ MARKI SEM LÖG LEYFA ER HEILDARBÓTAÁBYRGÐ GOOGLE, BIRGJA ÞESS OG DREIFINGARAÐILA, VEGNA KRÖFU SAMKVÆMT ÞESSUM SKILMÁLUM, ÞAR MEÐ TALIÐ VEGNA ÓBEINNAR ÁBYRGÐAR, TAKMÖRKUÐ VIÐ ÞÁ UPPHÆÐ SEM ÞÚ GREIDDIR OKKUR FYRIR NOTKUN Á ÞJÓNUSTUNNI (EÐA, EF VIÐ KJÓSUM SVO, AÐ VEITA ÞÉR ÞJÓNUSTUNA Á NÝ).
GOOGLE, BIRGJAR ÞESS OG DREIFINGARAÐILAR BERA EKKI UNDIR NEINUM KRINGUMSTÆÐUM ÁBYRGÐ VEGNA TAPS EÐA SKAÐA SEM EKKI ER UNNT AÐ SJÁ FYRIR MEÐ GÓÐU MÓTI.
Viðskiptanot af þjónustu okkar
Ef þú notar þjónustu okkar fyrir hönd fyrirtækis samþykkir það fyrirtæki þessa skilmála. Fyrirtækið mun tryggja skaðleysi og bæta skaða Google og dótturfélaga þess, fulltrúa, umboðsaðila og starfsmanna gagnvart kröfu, málsókn eða málshöfðun sem leiðir af eða tengist notkun þjónustunnar eða brotum á þessum skilmálum, þar með talin öll bótaábyrgð eða kostnaður sem leiðir af kröfum, tapi, skaða, málsóknum, dómum, málskostnaði eða lögfræðikostnaði.
Um þessa skilmála
Hugsanlega munum við breyta þessum skilmálum eða hverjum þeim viðbótarskilmálum sem eiga við um þjónustu, til dæmis til samræmis við breytingar á lögum eða á þjónustu okkar. Þú ættir að skoða skilmálana reglulega. Við munum birta tilkynningu á þessari síðu um breytingar á þessum skilmálum. Við munum birta tilkynningu um breytta viðbótarskilmála í þeirri þjónustu sem við á. Breytingar munu ekki gilda afturvirkt og munu ekki taka gildi fyrr en fjórtán dögum eftir að birt er tilkynning. Hins vegar munu breytingar varðandi nýja eiginleika þjónustu og breytingar af lagalegum ástæðum taka gildi samstundis. Ef þú samþykkir ekki breytta skilmála fyrir þjónustu ættirðu að hætta notkun þeirrar þjónustu.
Í þeim atriðum þar sem ósamræmi er milli þessara skilmála og viðbótarskilmálanna munu viðbótarskilmálarnir gilda.
Þessir skilmálar stjórna tengslunum milli Google og þín. Þeir skapa ekki nein réttindi þriðja aðila.
Ef þú fylgir ekki þessum skilmálum og við bregðumst ekki við þegar í stað merkir það ekki að við höfum afsalað okkur neinum réttindum (svo sem að bregðast við síðar).
Ef í ljós kemur að ekki er unnt að framfylgja einhverju ákvæði skilmála hefur það ekki áhrif á aðra hluta skilmálanna.
Lög Kaliforníuríkis í Bandaríkjunum, að undanskildum reglum Kaliforníuríkis um lagaskil, gilda um allan ágreining sem leiðir af eða tengist þessum skilmálum eða þjónustunni. Öll málaferli vegna krafa sem leiða af eða tengjast þessum skilmálum eða þjónustunni munu fara fram eingöngu fyrir alríkisdómstólum í Santa Clara-sýslu í Kaliforníu í Bandaríkjunum eða ríkisdómstólum í sömu sýslu, og þú og Google samþykkið lögsögu þessara dómstóla.
Upplýsingar um hvernig hægt er að hafa samband við Google eru á samskiptasíðunni okkar.